Miklar breytingar á skipulagi Icelandair

Bogi Nils Bogason tók við forstjórastöðunni hjá Icelandair Group fyrir …
Bogi Nils Bogason tók við forstjórastöðunni hjá Icelandair Group fyrir skemmstu. Í dag var tilkynnt um miklar breytingar á skipulagi félagsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Icelandair group, móðurfélag Icelandair, Loftleiða, Icelandair hotels, Fjárvakurs og Iceland travel, hefur gert miklar breytingar á skipulagi félagsins og hefur nýtt skipurit tekið gildi. Gerðar eru breytingar á framkvæmdastjórn og hefur verið tekin ákvörðun um að undirbúa sölu á Iceland travel.

Eftir breytinguna mun starfsemi Icelandair skiptast í átta svið sem samanstanda af fjórum kjarnasviðum og fjórum stoðsviðum. Kjarnasviðin verða sölu- og þjónustusvið, flugrekstrarsvið, flugflutningasvið og flugvélaleiga og ráðgjöf. Stoðsviðin verða: fjármálasvið, mannauðssvið, stafræn þróun og upplýsingatækni, sem og flugfloti og leiðarkerfi.

Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar snýst starfsemi sölu- og þjónustusviðs, flugrekstrarsviðs og flugflutningasviðs að mestu að því að hámarka afkomu af alþjóðlegu leiðarkerfi Icelandair, en svið flugvélaleigu og ráðgjafar mun nýta starfsemi Loftleiða til að miðla reynslu og rekstrarþætti á arðbæran hátt með samvinnu við flugfélög víða um heim.

Framkvæmdastjórar þessara átta sviða munu mynda framkvæmdastjórn Icelandair ásamt Boga Nils Bogasyni, forstjóra félagsins.

Breytingar á framkvæmdastjórn

Sölu- og markaðssvið og svið þjónustuupplifunar sem rekin hafa verið sem tvö aðskilin svið verða sameinuð í eitt. Birna Ósk Einarsdóttir, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra þjónustuupplifunar, mun leiða sameinað sölu- og þjónustusvið félagsins. Gunnar Már Sigurfinnsson, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs, situr áfram í framkvæmdastjórn félagsins sem framkvæmdastjóri flutningasviðs.

Tómas Ingason kemur nýr inn í framkvæmdastjórn félagsins og fer fyrir nýju sviði, stafrænni þróun og upplýsingatækni. Sviðið byggir á þróun síðustu ára hjá félaginu í þá átt að byggja stöðugt á nýjustu tæknilausnum sem í boði eru og stuðla að sjálfvirknivæðingu og þar með hagræðingu í rekstri. Tómas hefur störf 1. mars.

Eva Sóley Guðbjörnsdóttir kemur einnig ný inn í framkvæmdastjórn, eins og fram hefur komið og hefur störf sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs um miðjan febrúar.

Jafnframt taka Ívar S. Kristinsson, framkvæmdastjóri flotamála og leiðarkerfis félagsins, og Árni Hermannsson, framkvæmdastjóri Loftleiða Icelandic, sæti í framkvæmdastjórn.

Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, sem er nú í söluferli, mun við þessa breytingu víkja úr framkvæmdastjórn félagsins. Þá mun Jens Bjarnason framkvæmdastjóri nú einbeita sér að erlendu fjárfestingarverkefni en hann hefur undanfarin tvö ár leitt slíkt verkefni Icelandair Group á Grænhöfðaeyjum.

Þá kemur fram að Gunnar Már Sigurfinnssonar mun stýra frekari uppbyggingu á flutningasviði, en hann hefur stýrt Icelandair cargo í 10 ár. Sér félagið fram á tækifæri til að nýta leiðarkerfi Icelandair enn betur í fraktflutningum og er jafnframt verið að skoða möguleika á að útvíkka flutningastarfsemi félagsins enn frekar.

Ívar S. Kristinsson, framkvæmdastjóri flotamála og leiðarkerfis Icelandair mun stýra nýju sviði sem ber ábyrgð á flugrekstri félagsins. Tekur hann jafnframt sæti í framkvæmdastjórninni.

Færa Fjárvakur undir fjármálasvið og selja Iceland travel

Dótturfélag Icelandair Group, Fjárvakur, sem sinnt hefur ýmiss konar fjármálaþjónustu fyrir Icelandair Group, verður samþætt fjármálasviði félagsins. Magnús Kr. Ingason, framkvæmdastjóri Fjárvakurs, mun, að eigin ósk, láta af störfum í maí nk. þegar samþættingunni verður lokið. Í tilkynningunni segir að markmiðið með breytingunni sé að einfalda skipulag, stytta boðleiðir og lækka rekstrarkostnað.

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að ákveðið hafi verið að vinna að frekari samþættingu Air Iceland Connect og VITA við Icelandair Group. Þá hefur stjórn félagsins tekið ákvörðun um að hefja undirbúning á sölu Iceland Travel.

Ný í framkvæmdastjórn

Árni Hermannsson hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Lofteiða Icelandic síðan í janúar 2018 eftir að hafa verið fjármálastjóri fyrirtækisins frá árinu 2002. Áður starfaði hann sem fjármálastjóri tæknifyrirtækjanna ANZA og Álits. Hann er með Cand. Oecon.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

Eva Sóley Guðbjörnsdóttir starfaði sem framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Advania á Íslandi frá árinu 2015 og sem framkvæmdastjóri þjónustu- og rekstrarsviðs fyrirtækisins frá maí 2018. Áður starfaði hún sem forstöðumaður á fjármálasviði hjá Össuri. Þá hefur hún einnig starfað sem sjálfstæður ráðgjafi og fjárfestir en hún hóf starfsferil sinn í fjármálageiranum og starfaði hjá Kaupþingi banka í mörg ár Eva Sóley er verkfræðingur að mennt, með B.Sc. í hagverkfræði og hagfræði sem aukagrein og M.Sc. í fjármálaverkfræði frá Columbia University í New York.

Ívar S. Kristinsson hefur stýrt flugflotamálum Icelandair síðan í maí 2018 en hefur starfað á fjármálasviði Icelandair frá árinu 2010, síðast sem forstöðumaður rekstrarstýringar. Hann var forstöðumaður hjá Promens á árunum 2006-2008 og verkefnastjóri í upplýsingatækni og rekstrarstýringu hjá Icelandair frá 2000 til 2005. Ívar er með M.Sc.-gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og MBA-gráðu í fjármálum frá University of North Carolina, Chapel Hill.

Tómas Ingason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri nýs sviðs, stafrænnar þróunar og upplýsingatækni. Hann var fram­kvæmda­stjóri viðskipta­sviðs WOW air á árinu 2018 og forstöðumaður stafrænnar framtíðar hjá Arion banka á árunum 2016 til 2018. Hann starfaði einnig hjá WOW air á árinu 2014 sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunarsviðs. Fyrir þann tíma starfaði hann sem stjórn­un­ar­ráðgjafi hjá Bain & Comp­any í Kaup­manna­höfn og hjá Icelandair þar sem hann var forstöðumaður tekju­stýr­ingar og verðlagn­ingar um árabil. Tóm­as er með MBA-gráðu frá MIT Sloan School of Mana­gement í Bost­on, MSc.-gráðu í verk­fræði frá MIT með áherslu á flugrekst­ur og aðfanga­keðjur og BS-gráðu í iðnaðar­verk­fræði frá Há­skóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK