Samdráttur er ekki fram undan í þjóðarbúskapnum samhliða minni spennu að sögn Más Guðmundssonar seðlabankastjóra nema þjóðfélagið verði fyrir nýjum áföllum. Verkföll og launahækkanir langt umfram svigrúm yrðu slíkt áfall að hans sögn og myndu leiða til hærri vaxta og atvinnuleysis.
Þetta kemur fram í myndbandi sem birt hefur verið á vefsíðu Seðlabanka Íslands í tilefni af vaxtaákvörðun peningastefnunefndar bankans þar sem Már ræðir ákvörðunina. Þar segir hann að breytingar frá síðustu spá Seðlabankans gangi í gagnstæðar áttir. Hratt dragi úr hagvexti vegna samdráttar í ferðaþjónustunni og fleiri fyrirtæki vilji fækka starfsfólki en fjölga.
„Verðbólguhorfur, þær hafa versnað vegna þess að gengi krónunnar lækkaði á haustmánuðum. Það eru hins vegar góðar fréttir að langtímaverðbólguvæntingar hafa lækkað nokkuð frá því sem þær risu hæst fyrir jól og af þeim sökum hafa raunvextir Seðlabankans hækkað. Gagnstæðir kraftar birtast í þeirri ákvörðun okkar að halda vöxtum Seðlabankans óbreyttum.“
„Nú slaknar á spennu í þjóðarbúskapnum en það er ekki samdráttur fram undan nema að við verðum fyrir nýjum áföllum. Verkföll og launahækkanir langt umfram svigrúm yrðu slíkt áfall. Afleiðingin yrði hærri vextir og meira atvinnuleysi. Reynum að forða því,“ segir seðlabankastjóri.