Árslaun bankastjóra Landsbankans námu 44 milljónum króna árið 2018 sem er umtalsverð hækkun frá árinu á undan. Þarna er ekki tekið með í reikninginn 8,3 milljóna króna mótframlag í lífeyrissjóð.
Greint er frá árslaununum í ársskýrslu Landsbankans sem var birt í gær. Lilja Björk Einarsdóttir tók við sem bankastjóri í mars árið 2017 og það ár fékk hún 27 milljónir króna í laun, fyrir utan 5,2 milljóna mótframlag í lífeyrissjóð.
Ástæðan fyrir launahækkuninni er hækkun bankaráðs á mánaðarlaunum bankastjóra, að bifreiðahlunnindum meðtöldum, úr 3.250.000 krónum í 3.800.000 krónur 1. apríl 2018, að því er kemur fram í svari Landsbankans við fyrirspurn mbl.is.
„Ákvörðun bankaráðs um laun bankastjóra byggir á starfskjarastefnu Landsbankans þar sem segir að starfskjör stjórnenda og annarra starfsmanna bankans eigi að vera samkeppnishæf en ekki leiðandi. Kjör bankastjóra Landsbankans voru á sínum tíma felld undir kjararáð og var bankastjóri eini æðsti stjórnandi fjármálafyrirtækis sem féll undir ráðið,“ segir í svarinu.
„Þetta varð m.a. til þess að laun bankastjóra Landsbankans voru mun lægri en laun annarra stjórnenda í fjármálakerfinu. Laun bankastjóra Landsbankans hafa nú verið færð nær þeim kjörum sem almennt gilda fyrir æðstu stjórnendur fjármálafyrirtækja.“
Vaxtamunur eigna og skulda Landsbankans var 2,7% í lok árs 2018 samanborið við 2,5% í lok árs 2017.
Þegar spurt var hvort til greina komi að lækka vexti til neytenda vegna þessa munar segir í svarinu að ýmsir þættir hafi áhrif á vaxtamun bankans, m.a. stýrivaxtastig, verðbólga, hversu mikið af eignum bankans eru vaxtaberandi og fleira.
„Landsbankinn hefur undanfarin ár hagrætt í rekstri bankans og um leið aukið verulega stafræna þjónustu til viðskiptavina. Landsbankinn leitast við að bjóða viðskiptavinum bæði góða þjónustu og góð og samkeppnishæf kjör, en verður um leið að gæta að því að arðsemi af því fjármagni sem bundið er í rekstri bankans sé ásættanleg.“