Hlutabréfaverð Icelandair hefur hrunið það sem af er degi og er nú 17,6% lægra en við lokun markaða í gær. Viðskipti með bréf félagsins eru þó heldur lítil enn sem komið er, en aðeins hafa átt sér stað viðskipti fyrir 37 milljónir króna. Gengi bréfanna stendur nú í 8,49 krónum á hlut.
Í gær var greint frá því að Icelandair hafi tapað 6,7 milljörðum króna á síðasta ári. Var ástæðan sögð „samkeppni í millilandaflugi, lág og oft ósjálfbær fargjöld og mik[il] hækkun eldsneytisverðs. Jafnframt höfðu breytingar á sölu- og markaðsstarfsemi félagsins, sem og ójafnvægi í leiðarkerfi neikvæð áhrif á afkomuna.“