Stjórn Matís var ekki einróma um uppsögn Sveins Margeirssonar, fyrrverandi forstjóra Matís, þegar honum var sagt upp í desember. Þetta kemur fram í fundargerðum stjórnar Matís sem mbl.is hefur fengið afhentar. Ástæða uppsagnarinnar er sögð trúnaðarbrestur og í fundargerðunum má meðal annars sjá að deilt var um hvort Sveinn hafi upplýst stjórnina um þátttöku í umdeildu heimaslátrunarverkefni. Þá lét stjórn taka bókun úr fyrri fundargerð þar sem kom fram að rætt hafði verið um heimaslátrunina.
Matís er opinbert hlutafélag og þar með í eigu ríkisins. Hlutverk þess er útlistað á heimasíðu félagsins og er það að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu og bæta lýðheilsu.
Í lok september fór fram bændamarkaður á Hofsósi í Skagafirði. Var þar meðal annars selt kjöt frá bænum Birkihlíð, en lömbum hafði verið slátrað í samstarfi við Matís og var það gert í samræmi við verklag sem Matís hafði lagt til að gilti um örsláturhús. Hafði Matís skoðað möguleikann á slíkri slátrun í tengslum við verkefni sem miða að því að koma landbúnaðarvörum frá framleiðendum til neytenda með beinum hætti, en slíkt gengur jafnan undir nafninu beint frá býli.
Sveinn stóð meðal annars að sölunni á markaðinum og sagðist hann í samtali við Bændablaðið ekki hafa sérstaka skoðun á því hvort Matís hefði vísvitandi brotið lög með athæfinu, en samkvæmt lögum verður slátrun að fara fram á viðurkenndu sláturhúsi. Sagði Sveinn tilganginn að vekja athygli á því að þörf væri á lagabreytingum sem heimiluðu bændum að slátra heima og selja vöruna síðan.
Varð þetta til þess að Matvælastofnun (MAST) tilkynnti 11. október um innköllun á kjötinu og vísaði í fyrrgreind lög og að kjötið hefði ekki verið heilbrigðisskoðað af opinberum dýralækni. MAST óskaði svo 16. nóvember eftir því lögreglan myndi rannsaka markaðssetningu á heimaslátruðu lambakjöti sem selt var á bændamarkaðinum.
Stjórn Matís hélt stjórnarfund 4. september og kom fram í drögum að fundargerð að örslátrunarverkefnið umtalaða, sem Sveinn meðal annars vann að, hafði verið nefnt á fundinum sem og sú vinna sem Matís hefði unnið í tengslum við verkefnið.
Tveimur fundum síðar, 10 október, átti að staðfesta fyrri tvær fundargerðir, meðal annars frá 4. september. Á þessum tímapunkti hafði Bændablaðið greint frá örslátruninni í Birkihlíð og sölunni á Hofsósi. Stjórnin hittist hálftíma fyrir fundinn og var ákveðið að samþykkja að taka texta út úr drögum að fundargerðinni 4. september þar sem vísað er í umræðu um örslátrun og þá vinnu sem hafi verið unnin í því samhengi.
Samhliða þessu kemur fram að Sveinn vilji fara yfir málið og að bókun hans yrði hluti af fundargerðinni. Sindri Karl Sigurðsson, varaformaður stjórnarinnar, bókaði einnig að örslátrun og sala heimaslátraðs lambakjöts hafi aldrei komið til tals í stjórninni og hafi ekki verið í þökk stjórnar. Í bókun Sveins kemur fram að Sindri, auk Sigrúnar Traustadóttur ritara og Sjafnar Sigurgísladóttur stjórnarformanns, hafi á fundinum sagt að þau teldu örslátrunina ekki hafa verið nefnda á fundinum 4. september. Sveinn segist þessu ósammála þó að hann muni ekki einstök orðaskil.
Lagði Sveinn einnig fram ítargögn sem sýna að frásögnin um örslátrunina var í fyrstu drögum að fundargerðinni, sem skjalastjóri Matís og ritari fundarins setti saman. Er fundargerðin send út á stjórnina 13. september og á næsta stjórnarfundi, 20. september, óskar stjórnarformaður eftir því að frestað verði staðfestingu á fyrri fundargerð til næsta fundar. Segir Sveinn í bókun sinni að fyrir fundinn 10. október, hafi stjórn svo komið saman án forstjóra og í framhaldinu á stjórnarfundi hafi verið óskað eftir því að textinn um örslátrunina yrði fjarlægður úr fundargerðinni. Er það samþykkt á fundinum.
21. nóvember, fimm dögum eftir að MAST tilkynnti um kæruna til lögreglunnar vegna örslátrunarinnar, er haldinn annar stjórnarfundur hjá Matís. Greint er frá kærunni í fundargerðinni, en auk þess minnst á að Sveinn hafi hitt ráðherra vegna örslátrunar og unnið sé að því að greina hvort mögulegt sé að þróa lagaumhverfið þannig að slátrun bænda verði lögleg. Þá hafi Sveinn fundað með heilbrigðisnefnd Norðvesturlands um framkvæmd örslátrunar og segir þar að áhugi sé á að nýta reynsluna af bændamarkaðinum í tengslum við endurskoðun regluverks um sölu beint frá býli.
Tveimur dögum síðar, 23. nóvember, hittist stjórn Matís svo aftur, en í þetta skipti ekki á hefðbundnum fundarstað á skrifstofu Matís við Vínlandsleið, heldur í Turninum Borgartúni. Var þar farið yfir „þá stöðu sem upp er komin varðandi samskipti og traust milli stjórnar og forstjóra,“ eins og segir í fundargerðinni. Kemur fram að stjórn sé sammála um að við núverandi ástand verði ekki unað og að samskiptin væru ekki í lagi og að „traust milli aðila væri í það minnsta laskað“. Ekki kemur fram nákvæmlega í þessari fundargerð hvað felist í löskuðu trausti. Þá var samþykkt að fá lögfræðing til að skoða málið betur og meta möguleika stjórnarinnar.
3. desember er svo haldinn stjórnarfundur í gegnum síma þar sem rætt var um niðurstöðu lögfræðingsins. Var það mat stjórnarinnar að „samstarfsörðugleikar stjórnar og forstjóra séu orðnir með þeim hætti að það þjóni ekki hagsmunum Matís að búið verði við óbreytt ástand.“ Er í framhaldinu lagt upp með tvo kosti. Sá fyrri gangi út á að forstjórinn hætti, en sá síðari á að forstjóra verði gerð grein fyrir stöðunni og tveir mánuðir nýttir til að freista þess að byggja upp traust á ný.
Tveir stjórnarmenn, þær Helga Sigurrós Valgeirsdóttir og Drífa Kristín Sigurðardóttir, höfðu sent stjórn tillögur til úrbóta og vildu kjósa með seinni tillögunni. Hinir fimm í stjórninni kusu hins vegar með uppsögn. Ljóst er með bókun Helgu á fundinum að stjórnin vildi að Sveinn sendi frá sér opinbera afsökunarbeiðni vegna örslátrunarmálsins þótt yfirvöld væru enn með málið til skoðunar og niðurstaða ekki komin. Var stjórnarformanni í ljósi niðurstöðunnar veitt heimild til að gera starfslokasamning við Svein.
Sjöfn stjórnarformaður sagði í samtali við Rúv, eftir að greint hafði verið frá uppsögninni, að uppsögnin tengdist ekki einu ákveðnu máli heldur hafi „ákveðin þróun“ leitt til niðurstöðunnar. Ljóst er þó með lestri fundargerðanna að örslátrunarmálið er þar lykilatriði.
Sveinn var erlendis í vinnuferð þegar honum var sagt upp, 6. desember, en það var þremur dögum eftir að uppsögnin var ákveðin af stjórninni. Sjöfn sagði í fréttum Bylgjunnar daginn eftir að uppsögnina mætti rekja til lélegrar upplýsingagjafar og ganga hefði þurft strax frá uppsögn hans. Sveinn svaraði þeim ummælum á Facebook og sagðist hafa verið væntanlegur til landsins kvöldið eftir og hafnaði hann ásökunum um lélega upplýsingagjöf.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi vestra, sem fer með rannsókn á málinu sem MAST kærði, er það enn til rannsóknar og ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort það verði niðurfellt eða fari áfram í ákæruferli.
Ekki hefur enn verið ráðið í stöðu forstjóra félagsins, en Oddur M. Gunnarsson, fyrrverandi skrifstofustjóri, er starfandi forstjóri Matís.