WOW air flutti samtals 160 þúsund farþega til og frá landinu í janúar, en það eru 26% færri farþegar en í janúar árið 2018 þegar félagið flutti 217 þúsund farþega. Sætanýting í janúar var 80%, en var 88% í sama mánuði í fyrra. Framboðnum sætum fækkaði um 19% milli ára. Hlutfall tengifarþega stóð í stað og var 51%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu.
Í janúar í fyrra flutti WOW air í fyrsta skipti fleiri farþega en Icelandair, en þá flutti Icelandair 209 þúsund farþega. Sú þróun hefur hins vegar snúist við eftir fjárhagserfiðleika WOW air á síðasta ári og endurskipulagningu í rekstri, meðal annars með fækkun áfangastaða.
Samkvæmt tölum frá Icelandair fyrir janúar á þessu ári flutti félagið 227 þúsund farþega og hefur þeim því fjölgað um 8%. Þá var framboðið 10% meira í ár en í fyrra, en sætanýtingin var 71,9% samanborið við 72,3% í fyrra.
WOW mun í sumar fljúga til 26 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku. Kemur fram í tilkynningunni að meðal annars ætli félagið að hefja aftur flug til Tel Aviv í Ísrael.