Bréf Icelandair lækkuðu mest í Kauphöllinni í dag í 255 milljóna króna viðskiptum, en við lokun höfðu þau lækkað um 5,2%. Bréfin lækkuðu fram yfir hádegi og fóru þau lægst niður um 7,6%, en þegar leið á daginn hafði gengi þeirra aðeins hækkað á ný.
Bréf aðeins þriggja félaga hækkuðu í dag. Marel fór upp um 1,25%, Reitir um 0,28% og Eik um 0,24%. Bréf í Eimskip, VÍS og Sýn lækkuðu um rúmlega 1% í dag, en önnur félög lækkuðu minna.
Með lækkuninni í dag hafa bréf Icelandair lækkað um 20,3% síðan ársuppgjör síðasta árs var birt eftir lokun markaða á fimmtudaginn. Þar kom fram að félagið hefði tapað 6,7 milljörðum króna. Var ástæðan sögð „samkeppni í millilandaflugi, lág og oft ósjálfbær fargjöld og mik[il] hækkun eldsneytisverðs. Jafnframt höfðu breytingar á sölu- og markaðsstarfsemi félagsins, sem og ójafnvægi í leiðarkerfi neikvæð áhrif á afkomuna.“