47% fjölgun íbúða á söluskrá

mbl.is/Sigurður Bogi

Árið 2018 voru rúmlega 24 þúsund fasteignir auglýstar til sölu á öllu landinu sem er 47% aukning frá árinu á undan, þegar rúmlega 16 þúsund fasteignir komu nýjar inn á fasteignasöluvefi landsins. Það er því ljóst að framboð fasteigna jókst mikið á nýliðnu ári, á sama tíma og sölutími hélst nokkurn veginn óbreyttur. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Utan höfuðborgarsvæðisins fór meðalsölutími fasteigna lækkandi á nýliðnu ári líkt og þróunin hefur verið allt frá árinu 2015, bæði í sérbýli og fjölbýli. Til að mynda var tíminn sem það tók að selja íbúð í fjölbýli utan höfuðborgarsvæðisins um 100 dagar árið 2018 samanborið við um 270 daga árið 2015. Sölutími á höfuðborgarsvæðinu breyttist lítið frá fyrra ári.

Ef borinn er saman meðalfjöldi netflettinga á hverja nýja fasteignaauglýsingu yfir tímabilið 2014 til 2018 kemur í ljós að hann fór stigvaxandi á árunum 2014 til 2017. Hver fasteign var skoðuð að meðaltali 550 sinnum árið 2014 en flettingum á hverri fasteign sem til sölu var fjölgaði þar til gögnin sýndu staðbundið hámark árið 2017 þegar smellt var að meðaltali rúmlega 1.000 sinnum á hverja fasteignaauglýsingu sem kom ný inn það árið.

Meðalsölutími fasteigna var um 120 dagar árið 2014, hann jókst svo upp í 150 daga að meðaltali árið 2015 en lækkaði svo niður í tæplega 100 daga árið 2017.

„Það má því gera ráð fyrir því að vaxandi áhugi hafi orðið á fasteignakaupum [og] hafi aukist síðan 2015, þar sem flettingum fjölgaði á sama tíma og sölutími styttist. Gera má ráð fyrir að því lengur sem ákveðin íbúð er auglýst til sölu á vefnum, því oftar sé sú fasteign skoðuð á netinu yfir tíma.

Á nýliðnu ári dróst fjöldi flettinga á hverja fasteign þó ögn saman en hver fasteign var skoðuð 870 sinnum. Þó ber að hafa í huga að talsvert fleiri fasteignir voru til sölu þá samanborið við árin á undan og sölutími var mjög áþekkur milli ára. Ef horft er til heildarfjölda flettinga fasteignaauglýsinga á netinu voru þær alls um 21 milljón talsins á árinu 2018 samanborið við tæplega 17 milljónir flettinga fasteignaauglýsinga árið 2017 og 14 milljónir árið 2016,“ segir í nýrri skýrslu Íbúðalánasjóðs.

Oftast smellt á fasteignaauglýsingar í 104 og 108

Ef horft er til hverfaskiptinga á höfuðborgarsvæðinu eftir póstnúmerum kemur fram að oftast er smellt á hverja auglýsingu vegna fasteigna í Háaleitis- og Bústaðahverfi (108 Rvk) og í Laugardalnum (104 Rvk) ef tekið er mið af meðalfjölda flettinga.

Að meðaltali voru virkar fasteignaauglýsingar skoðaðar um 1.200 sinnum í þeim hverfum í fyrra. Meðalfjöldi flettinga var svipaður í dreifbýli Kjalarness (162 Rvk) en þess ber þó að geta að afar takmarkað framboð var af fasteignum til sölu á því svæði. 

Á árinu 2018 voru flestar auglýstar fasteignir í miðbæ Reykjavíkur (101), þar á eftir í Hlíðunum (105 Rvk) og síðan Kórahverfinu í Kópavogi (203) og Garðabæ (210). Alls komu inn um 1.800 nýjar fasteignaauglýsingar í póstnúmeri 101 Reykjavík á árinu 2018, ríflega 1.500 í Hlíðunum og 1.300 í Kórahverfi Kópavogs. 

Leiga hækkaði um 8,3%

Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði meira en íbúðaverð á milli áranna 2017 og 2018 samkvæmt þinglýstum leigu- og kaupsamningum sem liggja til grundvallar vísitölum sem Þjóðskrá gefur út. Leiguverð hækkaði um 8,3% milli ára á sama tíma og íbúðaverð hækkaði um 6,2% á höfuðborgarsvæðinu. Hagstofa Íslands tekur saman gögn um launaþróun á landsvísu og má sjá að hækkun launa milli ára er áþekk hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu eða 6,5%

Um 7.000 íbúðir eru þessa dagana í byggingu hér á landi samkvæmt nýjustu upplýsingum. Af þessum 7.000 íbúðum eru ríflega 5.000 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Næst á eftir höfuðborgarsvæðinu eru flestar íbúðir í byggingu á Suðurnesjum eða um 634 talsins. Hlutfallslega flestar íbúðir eru í byggingu á suðvesturhorninu og fæstar á Vestfjörðum.

Alls var 1,5 milljörðum króna úthlutað úr ríkissjóði til fjármögnunar 267 leiguíbúða fyrir tekju- og eignaminni leigjendur eða aðra félagshópa í síðari úthlutun ársins 2018. Alls hefur stofnframlögum verið úthlutað sex sinnum frá 2016 til 2018, samtals um 9 milljörðum kr. til uppbyggingar eða kaup á tæplega 1.700 íbúðum. Markmið með veitingu stofnframlaga er að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi íbúðarhúsnæði til leigu.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK