Airbus-flugvélaframleiðandinn hefur tilkynnt að hætt verði framleiðslu á A380-farþegaþotunni, sem er stærsta farþegaþota heims. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir að síðustu pantanir á A380-vélunum verði afhentar árið 2021.
BBC segir ákvörðunina hafa verið tekna eftir að Emirates-flugfélagið, sem hefur verið stærsti kaupandinn að vélunum, ákvað að minnka pöntun sína úr 162 slíkum farþegaþotum í 123 vélar. A380-farþegaþotan er dýr í framleiðslu og hefur átt erfitt með að keppa við minni og hagkvæmari farþegaþotur.
„Afleiðing þessarar ákvörðunar er sú að við erum ekki lengur með umtalsverðan fjölda óafgreiddra pantana og þar með höfum við ekki lengur grundvöll fyrir að viðhalda framleiðslunni þrátt fyrir tilraunir okkar undanfarin ár til að kynna öðrum flugfélögum vélina,“ segir Tom Enders forstjóri Airbus. Síðasta A380-farþegaþotan verði því afhent árið 2021.
„Farþegar um heim allan njóta þess að fljúga í þessari frábæru þotu, ákvörðunin sem við tökum í dag er okkur því sársaukafull.“
BBC segir enn ekki ljóst hvaða áhrif þetta muni hafa á þann fjölda starfsmanna sem kemur að gerð þotunnar, en Airbus kveðst vonast til að aukinn fjöldi pantana á A320-farþegaþotunni muni vega upp á móti þessu að hluta.