Einar Þórarinsson og Jón Brynjar Ólafsson hafa verið ráðnir framkvæmdastjórar hjá Advania. Þeir Einar og Jón Brynjar hafa báðir starfað hjá Advania um nokkurra ára skeið. Einar mun leiða nýtt svið þjónustu- og markaðsmála og Jón Brynjar verður framkvæmdastjóri fjármálasviðs.
Hlutverk sviðs þjónustu- og markaðsmála er að samþætta víðtæka þjónustu félagsins og tryggja jákvæða upplifun viðskiptavina. Einar hefur starfað hjá Advania í átta ár og hefur 20 ára stjórnunarreynslu úr upplýsingatæknigeiranum. Hann gegndi áður starfi forstöðumanns þjónustuupplifunar Advania. Einar er tölvunarfræðingur að mennt með viðskiptafræði sem aukagrein frá Háskólanum í Reykjavík.
Jón Brynjar hefur starfað hjá Advania í tæp fjögur ár og gegndi áður starfi forstöðumanns fjármálasviðs fyrirtækisins. Hann hefur leitt tekju- og kostnaðarskráningu Advania, uppgjörsvinnu ásamt innri og ytri greiningarvinnu. Jón Brynjar er með meistaragráðu í fjármálum og stefnumótandi stjórnun frá Copenhagen Business School.