Jim Ratcliffe, ríkasti maður Bretlands sem er Íslendingum kunnur fyrir jarðakaup sín hér á landi, er sagður ætla að flytja til Mónakó til að spara allt að fjóra milljarða punda í skatta. Greint er frá þessu á vef Guardian, sem segir Ratcliffe og tvo helstu lykilstjórnendur hans í efnavinnslufyrirtækinu Ineos vera að undirbúa skattasparnað með flutningnum.
Ineos er metið á um 35 milljarða punda og greinir Sunday Times frá því að stjórnendur þess vinni nú, ásamt skattasérfræðingum endurskoðunarfyrirtækisins PricewaterhouseCoopers (PwC), að því að breyta uppbyggingu fyrirtækisins með það í huga að minnka skattagreiðslur.
Guardian segir Ratcliffe vera í hópi þeirra sem þrýst hafa á að grænir skattar séu lækkaðir og að dregið sé úr hömlum á bergbrotsvinnslu sem notuð er við að ná út leirsteinsgasi (e. fracking). Hann á 60% hlut í Ineos, en hagnaður fyrirtækisins á síðasta ári nam rúmum 2,2 milljörðum punda.
Lykilmenn Ratcliffe hjá Ineos, þeir Andy Currie og John Reece, eru þá sagðir eiga 20% hlut hvor og stefna einnig á búferlaflutninga til Mónakó.
Guardian segir að greint hafi verið frá því á síðasta ári að Ratcliffe stefndi á að flytja til Mónakó, en að þessar nýjustu fréttir sýni nákvæmlega hversu mikið þremenningarnir geti sparað með flutningunum og að fjárhæðin nemi að lágmarki 440 milljónum punda.
Sir Vince Cable, leiðtogi breska Frjálslynda demókrataflokksins, segir búferlaflutninga Ratcliffe „verulega kaldhæðnislega“, en Ratcliffe var í hópi þeirra sem studdu útgöngu Breta úr Evrópusambandinu í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
John McDonnell, þingmaður Verkamannaflokksins og skuggafjármálaráðherra, segist verulega „vonsvikinn“ með flutningsáform Ratcliffes. „Ég er steinhissa, þar sem þetta er ofurríkur maður. Við erum ekki að tala um einhvern sem er á vonarvöl,“ sagði McDonnell.