Samkvæmt nýju verðmati ráðgjafafyrirtækisins Capacent sem Morgunblaðið hefur undir höndum er Icelandair Group nú metið á 12 kr. á hlut sem er 40% yfir markaðsvirði. Lækkar verðmatið um 24% frá síðasta mati en í því er mikið gert úr háum launakostnaði félagsins og hann borinn saman við valin erlend flugfélög sem hafa í meiri mæli flutt hluta starfsemi sinnar úr landi til þess að lækka launakostnað.
Laun og launatengd gjöld hækkuðu um tæp 9% á árinu 2018 í krónum talið hjá Icelandair og laun sem hlutfall af tekjum nema 34,2%. Eru „hærri tölur vandfundnar“ að mati greinenda Capacent. Sama hlutfall nemur 7,6% hjá ungverska flugfélaginu Wizz Air og 21,1% hjá SAS.
Sé nánar rýnt í þær tölur kemur í ljós að launakostnaður á hvern starfsmann hjá Wizz Air er innan við helmingur af því sem hann er hjá Icelandair en aðeins um 5% meiri en hjá SAS. Að mati greinenda Capacent „eru rekstrarniðurstöður þessara þriggja félaga fyrir árið 2018 sláandi“. Wizz air úthýsir þjónustu í miklum mæli og var EBIT-hlutfall þess, þ.e. hagnaður sem hlutfall af tekjum fyrir fjármagnsliði og skatta, 15%. EBIT-hlutfall SAS nam 5,6% en hlutfallið var neikvætt upp á 5,2% hjá Icelandair sem sögulega séð hefur úthýst litlum hluta starfseminnar.
„Það eru margar breytur í þessu. Hvað gerist ef olíuverð hækkar aftur og verð flugmiða ekki? Í hvernig stöðu verður Icelandair þá? Hún gæti orðið enn verri. Og hreint útséð sé ég ekki fram á að félagið geti hækkað launin neitt. Það er lítið svigrúm til þess. Launin voru að hækka um 7,3% í bandaríkjadölum á starfsmann um 9% í íslenskum krónum. Það virðist benda til þess að félagið hafi ekki nægilega stjórn á þeim málum," segir Snorri Jakobsson, sérfræðingur hjá Capacent.
Snorri segir fyrirtækið geta gert betur á ýmsum vígstöðvum.
„Það er náttúrlega launakostnaðurinn. Og þeir þurfa einnig að ná betri nýtingu á leiðunum sem félagi hefur þegar. Það hefur verið ójafnvægi í flugleiðunum á milli Ameríku og Evrópu," segir Snorri Jakobsson en Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, hefur sagt að félagið sé að nú þegar byrjað á því að laga það ójafnvægi sem varð á leiðakerfinu árið 2018.
Í árslok 2018 nam eiginfjárhlutfall Wizz Air 58%, SAS 21%, og Icelandair 32%.