Baldur Arnarson
Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbanka Íslands, segir að ætla megi að umsækjendur um stöðu bankastjóra LÍ hafi horft til launa í öðrum stórfyrirtækjum.
„Þegar við auglýstum eftir nýjum bankastjóra voru launin á sama tíma færð frá kjararáði til bankaráðs. Þannig að við þurftum að fara í faglega skoðun á málinu. Við sáum að það væri ekki hægt að bjóða nýjum bankastjóra að vera á launum sem væru hvergi nálægt því að vera samkeppnishæf. Svo voru umsækjendur vafalítið að líta til starfskjarastefnu okkar, auk þess að líta til launa bankastjóra hinna bankanna,“ segir Helga Björk.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir hún bankann hafa leitað til þriggja ráðgjafarfyrirtækja varðandi launakjör bankastjóra. Þeirra niðurstaða hafi verið að eðlilegt væri að launin væru 3,5-4,9 milljónir á mánuði. Til samanburðar hafi bankastjórinn verið með um 2,1 milljón á mánuði áður en bankaráðið hækkaði launin.