Stefán E. Stefánsson
Icelandair Group hefur sent flugvélaframleiðendunum Boeing og Airbus erindi þar sem kallað er eftir formlegum viðræðum um möguleg kaup félagsins á nýjum þotum sem ætlað er að bætast við flota þess á komandi árum.
Miða viðræðurnar samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans að því að fá úr því skorið með hvaða hætti stórum hluta núverandi flota félagsins, þ.e. hinum svokölluðu 757-vélum frá Boeing, verður lagt og nýrri og sparneytnari vélar teknar í notkun í stað þeirra.
Á komandi vikum tekur Icelandair í notkun sex nýjar Boeing 737 MAX-vélar, en þær eru í hópi þeirra 16 véla þeirrar tegundar sem félagið tekur við á árabilinu 2018-2021. Þótt stjórnendur Icelandair muni vera mjög ánægðir með reynsluna af MAX-vélunum frá Boeing er ljóst að þær henta ekki til notkunar á alla áfangastaði félagsins, þ.e. þá sem lengst þarf að sækja á. Enn sem komið er hefur Boeing ekki boðið upp á vélar sem leyst geta 757-vélarnar fyllilega af hólmi en framleiðslu þeirra var hætt árið 2004. Gert er ráð fyrir að Boeing muni koma með slíka vél á markað árið 2025. Heimildir ViðskiptaMoggans herma að Icelandair vinni eftir þremur sviðsmyndum sem bæði geri ráð fyrir blönduðum flota Airbus- og Boeing-véla en að einnig komi til greina að aðeins verði skipt við annan hvorn framleiðandann. Icelandair hefur átt áratugalangt samstarf við Boeing en þegar samningar um fyrrnefndar 737 MAX-vélar voru undirritaðir kom einnig til greina að ganga til samninga við Airbus.