Skattamál liðsmanna Sigur Rósar er komið til ákærusviðs hjá embætti héraðssaksóknara og rannsókn málsins lokið. Ekki er ljóst hvort, eða hvenær, ákæra verður gefin út í málinu.
Greint er frá þessu á vef Ríkisútvarpsins.
Fram kom í fréttum í mars á síðasta ári að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefði kyrrsett eignir liðsmanna Sigur Rósar, að kröfu tollstjóra. Kyrrsetningin varðaði eignir upp á 800 milljónir króna.
Georg Holm, bassaleikari Sigur Rósar, greindi frá því sama dag að allt væri uppi á borðum hjá hljómsveitinni.
Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti kyrrsetninguna í ágúst. Þar kom fram að meint skattabrot þremenninganna hafi verið í rannsókn frá því í janúar 2016 og nær til tekjuáranna 2010-2014.
Enn fremur kom þar fram að skattayfirvöld telji meint brot mjög alvarleg sem falli undir 262. grein almennra hegningarlaga, en brot á þeirri grein varða allt að sex ára fangelsi, eða fésekt.