Hagnaður Kviku nam um 1,8 milljörðum króna á árinu 2018 eftir skatt samanborið við um 1,6 milljarða hagnað á árinu 2017 og hækkaði um 10%. Arðsemi eigin fjár var 15,7%.
Heildareignir í árslok 2018 námu 88,3 milljörðum króna samanborið við 75,6 milljarða árið áður, eigið fé var 13 milljarðar og eiginfjárhlutfallið 25,1%. Heildareignir í stýringu í árslok 2018 námu 291 milljarði króna.
Hreinar rekstrartekjur bankans námu 5,7 milljörðum króna samanborið við 5 milljarða í fyrra en mest var aukningin í hreinum þóknanatekjum, sem námu 3,7 milljörðum króna og jukust um 32%.
Í tilkynningu til Kauphallar sagði Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, að afkoma ársins væri í samræmi við áætlanir og árið hefði verið gott.
„Árið 2018 var gott ár og við erum ánægð með afkomu ársins sem er í samræmi við þær áætlanir sem við gerðum, þrátt fyrir erfiðar aðstæður á mörkuðum. Bankinn gekk frá kaupsamningi á Gamma Capital Management á árinu 2018 og hefur Fjármálaeftirlitið gefið samþykki sitt fyrir kaupunum en beðið er samþykkis Samkeppniseftirlitsins.
Afkoma bankans var góð, fjármögnun bankans styrktist og vel gekk að halda rekstrarkostnaði á áætlun. Uppbygging bankans hefur gengið í samræmi við áætlanir, vaxtatekjur hafa styrkst og veruleg aukning er í þóknanatekjum. Afkoma eignastýringar meira en tvöfaldaðist á milli ára, ekki síst vegna vel heppnaðra samruna við Virðingu og Öldu sjóði. Árið 2018 var fyrsta heila starfsárið eftir kaupin og munu þau hafa jákvæð áhrif á rekstur bankans til framtíðar.
Sameiningar og kaup undanfarin misseri hafa skilað sér í sterkari og stöðugri rekstrartekjum. Horfur í rekstri bankans eru ágætar og þá felast mikil tækifæri í fyrirhuguðum kaupum á Gamma Capital Management.“