Hlutabréf í Sýn, móðurfélagi Vodafone, Stöðvar 2, Vísis og fleiri miðla, hafa lækkað um 7% í rúmlega 40 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Í gær birti félagið uppgjör síðasta árs og hætti forstjóri félagsins samhliða því.
Samkvæmt uppgjörinu lækkaði hagnaður félagsins og var 473 milljónir í fyrra. Nam lækkunin 56% milli ára. Heildartekjur félagsins jukust að sama skapi um 54% og námu 21,9 milljörðum, en árið í fyrra var fyrsta ár sameinaðs fyrirtækis á heilu rekstrarári eftir að Sýn keypti tilteknar eignir og rekstur 365 miðla í desember 2017.
Heiðar Guðjónsson stjórnarformaður Sýnar tók við hlutverki forstjóra fram að ráðningu nýs forstjóra til félagsins, en Heiðar er stór hluthafi í Sýn.