Það var árið 2012 sem Fida Abu Libdeh stofnaði fyrirtækið geoSilica ásamt Burkna Sigurðssyni skólabróður sínum. Nú sjö árum síðar er fyrirtækið metið á ríflega 800 milljónir króna.
Fyrirtækið seldi 30 þúsund einingar af vörum sínum í fyrra en Fida segir að raunhæft markmið sé að salan muni nema einni milljón eininga að fimm árum liðnum. Hún heldur nú í maí á stærstu hráefnissýningu í heimi. Hún hefur trú á því að þar muni fyrirtækið landa stórum sölusamningum og færa út kvíarnar, sem í dag séu einkum bundnar við Ísland og þýskumælandi lönd í Evrópu.
En saga Fidu er eftirtektarverð. Þegar hún kom til Íslands ásamt móður sinni og fimm systkinum, var fátt sem benti til þess að hún myndi stofna einn mest spennandi vaxtarsprota íslensks viðskiptalífs 17 árum síðar. En það gerðist samt.