Landsvirkjun greiði 3-4 milljarða í arð

Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar, á haustfundi fyrirtækisins sl. haust.
Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar, á haustfundi fyrirtækisins sl. haust. mbl.is/Hari

„Þetta er í rauninni bara í samræmi við það sem höfum verið að segja undanfarin ár, að innan nokkurra ára yrði skuldsetning fyrirtækisins þannig að við gætum farið að auka arð,“ segir Hörður Arnarsson forstjóri Landsvirkjunar í samtali við mbl.is, eftir ársfund Landsvirkjunar sem fram fór í dag.

Hann reiknar með því að Landsvirkjun greiði á bilinu 3-4 milljarða í arð til ríkisins fyrir árið 2018, en endanleg ákvörðun um það verður tekin á aðalfundi félagsins.

Niðurstaða ársins hjá Landsvirkjun var afar góð og lýsti fjármálastjórinn Rafnar Lárusson því í erindi sínu á fundinum að eiginfjárhlutfall Landsvirkjunnar hefði aldrei verið jafn hátt í fimmtíu ára sögu félagsins.

Hörður segir að Landsvirkjun hafi undanfarin tíu á einbeitt sér að því að borga niður skuldir og auk þess fjárfest mikið, en félagið hefur fjárfest fyrir um það bil 120 milljarða króna á síðustu tíu árum og greitt niður skuldir fyrir sömu upphæð.

„Nú geta arðgreiðslurnar farið að aukast, þær hafa verið svona um einn og hálfan milljarð en við höfum talað um að þær færu stigvaxandi á nokkrum árum og komist upp í 10-20 milljarða þar sem þær gætu haldist,“ segir Hörður.

Gengið vel að fá stórnotendur yfir á „nýja verðið“

Þáttaskil urðu fyrir um 15 árum í verðlagningu orku til stórnotenda á Íslandi og fór Hörður yfir það í ávarpi sínu á ársfundinum í dag. Bæði voru sett ný raforkulög hérlendis og svo urðu breytingar á alþjóðavísu, sem hækkuðu verð á raforku til stórnotenda almennt.

Eldri verðstefna gerði ráð fyrir því að orka til stórnotenda væri seld á bilinu 15-25$ á MW-stund en ný verðstefna felur í sér að samningar séu gerðir um að selja hverja MW-stund á bilinu 30-45$.

Mynd/Landsvirkjun

Hörður segir að góður árangur hafi náðst í að endursemja um verðið við eldri viðskiptavini og nú sé það svo að Landsvirkjun vonist eftir því að níu af stórnotendunum tíu, sem kaupa 80% af allri orkunni sem Landsvirkjun selur, verði komnir á „nýja verðið“, og þá verði Alcoa eini stórnotandinn sem eigi eftir að semja við um raforkuna samkvæmt nýrri verðstefnu Landsvirkjunar.

Hörður segir aðspurður að þessar viðræður séu vissulega strembnar, enda sé um að ræða stærstu viðskiptasamninga sem gerðir séu á Íslandi, langtímasamninga um gríðarmikla orkunotkun.

„Þannig að við erum þarna að takast á um mikil verðmæti,“ segir Hörður.

Eðlilegt að ríkið kaupi Landsnet

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir opinberaði það í ávarpi sínu við upphaf fundar að ríkisstjórn Íslands hefði fyrir nokkrum vikum samþykkt að hefja viðræður um að kaupa Landsnet, sem er í meirihlutaeigu Landsvirkjunar. Landsvirkjun beitir sér þó að engu leyti við stjórn þess fyrirtækis og er það óheimilt.

„Það finnst mér mjög eðlilegt. Við höfum alveg verið sammála því og ég tek líka undir það sem ráðherrann sagði, það er ekki síður mikilvægt að aðskilja dreifiveiturnar og orkuframleiðsluna, aðskilnaður Landsnets og Landvirkjunar hefur gerst alfarið, nema eignarhaldið. Það voru ákvæði í lánasamningum sem flæktu það, en við erum búin að ná þeim ákvæðum út að miklu leyti. En aftur á móti, ef við horfum á dreifiveiturnar, sem er stærsti kostnaður heimilanna, þá er mikill samrekstur dreifiveitnanna enn þá við orkuveituna, það hefur ekki orðið aðskilnaður,“ segir Hörður.

Hann bætir því við að hann sem forstjóri Landsvirkjunar styðji þess vegferð, en þó sé auðvitað ýmislegt sem þurfi að ræða í þessu samhengi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK