Ríkissjóður Íslands hefur keypt 38% hlut í Farice ehf. af Arion banka, en Farice á og rekur sæstrengina FARICE-1 og DANICE. Eftir kaupin á ríkið um 65% hlut í félaginu og á Landsvirkjun afganginn af hlutabréfunum. Er félagið því alfarið komið í eigu ríkisins. Kaupverðið er 740 milljónir króna að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu.
Íslenska ríkið hefur skilgreint fjarskiptasambönd til útlanda sem innviði og eru kaupin gerð í ljósi þess. Arion banki varð hluthafi í Farice árið 2010 í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar en þar sem starfsemi Farice er ekki hluti af kjarnastarfsemi bankans, hefur hluturinn verið til sölu síðan þá.
Farice var stofnað í nóvember árið 2002 af ríkinu og íslenskum og færeyskum fjarskiptafyrirtækjum. FARICE-1 strengurinn var tekinn í notkun í janúar 2004, en fimm árum síðar var DANICE strengurinn lagður til Danmerkur. Farice er langstærsti aðilinn í sölu á samböndum milli Íslands og útlanda. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru fjarskiptafyrirtæki hvers konar og stærri viðskiptavinir gagnavera.