Farþegum í innanlandsflugi fækkaði um 12% í janúar en á síðasta ári fækkaði farþegum um 5%. Þetta kemur fram á vef Túrista.
Allt síðasta ár fækkaði farþegum í innanlandsflugi og sú þróun heldur áfram. Í janúar síðastliðnum fóru 51.264 farþegar um innanlandsflugvellina en þeir voru ríflega 7 þúsund fleiri á sama tíma í fyrra. Hlutfallslega nemur samdrátturinn um 12 prósentum, segir í frétt Túrista.
Inni í þessum tölum eru allir þeir sem nýttu sér Íslandsflug bresku ferðaskrifstofunnar Super Break til og frá Akureyrarflugvelli. Og samkvæmt tölum frá breskum flugmálayfirvöldum voru þetta um sautján hundruð farþegar í nýliðnum janúar eða álíka margir og á sama tíma í fyrra.