Hagvöxtur á heimsvísu mun nema 3,3% í ár samkvæmt nýbirtri hagspá Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sem birt var í dag. Er það talsvert lakari hagvöxtur en stofnunin gerði ráð fyrir að yrði í ár þegar hún birti síðast hagspá sína í nóvember síðastliðnum. Þá gerði hún ráð fyrir því að heimshagvöxturinn yrði 3,5%.
Þá gerir OECD ráð fyrir því að hagvöxtur árið 2020 verði 3,4% á næsta ári en í nóvember síðastliðnum spáði stofnunin því að hann yrði 3,5%. Í tilkynningu sem stofnunin sendi frá sér í tengslum við hina nýju hagspá segir: „Heimshagkerfið er að hægja á sér og mikil áhætta er enn til staðar, með minni vexti sem reynist mun minni en væntingar stóðu til í Evrópu.“
„Veikleikamerki sem rekja má til Kína og veikara hagkerfis Evrópu, í sambland við kólnandi viðskipti og heimsframleiðslu, mikla óvissu um stefnu stjórnvalda og áhættu á fjármálamörkuðum gæti dregið úr sterkum og sjálfbærum vexti til meðallangs tíma á heimsvísu,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni.
En það er ekki aðeins í Evrópu sem spárnar eru svartsýnni nú en í október. Nú er t.d. gert ráð fyrir 1,5% hagvexti í Kanada í ár en í nóvemberspánni var gert ráð fyrir 2,2% hagvexti. Þá lækkar spáin eilítið fyrir 2020 einnig og fer úr 2,0% í 1,9%.
Sé litið til evru-svæðisins lækkar spáin verulega fyrir árið í ár. Fer úr 1,8% í 1,0% og fyrir árið 2020 fer spáin úr 1,6% í 1,2%.
Horft til einstakra landa hefur staðan í Þýskalandi breyst til hins verra. Nú er gert ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði 0,7% en fyrir fjórum mánuðum var talið að vöxturinn í ár næmi 1,6%. Þá er talið að hagkerfi landsins gefi enn eftir 2020 miðað við fyrri spá og að hagvöxturinn verði 1,1% í stað 1,4% áður.
Í Bretlandi er gert ráð fyrir minni vexti en áður. Þannig er talið að hagvöxturinn í ár verði 0,8% í stað 1,4% skv. nóvemberspánni. Þá verði vöxturinn eilítið meiri 2020 en áður var talið. Hann verði 1,1% í stað 0,9%.