Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samruna Kviku banka hf. og Gamma Capital Management hf.
Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þess efnis var birt í dag, að því er segir í tilkynningu.
„Að undangenginni rannsókn er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins sú að ekki séu fyrir hendi vísbendingar um að samruninn leiði til myndunar eða styrkingar markaðsráðandi stöðu samrunaaðila á neinum markaði. Jafnframt verður ekki séð að samkeppni á mörkuðum raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti,“ segir í niðurstöðu mats á samkeppnislegum áhrifum af samruna fyrirtækjanna.
Fram kemur að með hliðsjón af rekstrarstarfsemi samrunaaðila taki samruninn nær eingöngu til eignastýringar þar sem umsvif Gamma á öðrum sviðum fjármálaþjónustu sem Kvika býður einnig upp á, séu afar lítil.
Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er sú að samruninn gefi ekki tilefni til íhlutunar.