Ný stjórn Icelandair Group var kjörin á aðalfundi félagsins sem haldinn var nú síðdegis. Í stjórn voru kjörin þau Guðmundur Hafsteinsson, Heiðrún Jónsdóttir, Ómar Benediktsson, Svafa Grönfeldt og Úlfar Steindórsson. Svafa kemur ný inn í stjórnina en aðrir stjórnarmenn hlutu endurnýjað umboð til stjórnarsetunnar.
Sjö einstaklingar buðu sig fram í sætin fimm en þær Guðný Hansdóttir og Þórunn Reynisdóttir náðu ekki kjöri.
Fyrr í þessari viku var Svafa Grönfeldt kjörin í stjórn Origo. Hún situr í stjórn MIT DesignX sem er nýjasti viðskiptahraðall MIT háskólans í Boston. Þá starfar hún einnig við nýsköpunarsetur skólans. Svafa starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá Alvogen og þar áður sem rektor Háskólans í Reykjavík og aðstoðarforstjóri Actavis. Svafa er með doktorspróf frá LSE í London í vinnumarkaðsfræðum.
Svafa situr í stjórn stoðtækjafyrirtækisins Össurar en bréf fyrirtækisins voru skráð í Kauphöll Íslands allt þar til þau voru afskráð í desember 2017. Þau eru þó áfram til viðskipta í kauphöll Nasdaq Copenhagen.
Nýkjörin stjórn skipti með sér verkum strax að loknum fundinum. Þar var Úlfar Steindórsson valinn formaður stjórnar og Ómar Benediktsson varaformaður.