Hlutabréf í Icelandair hafa lækkað um 8,4% það sem af er degi, en gengið hafði haldist nokkuð stöðugt þangað til bresk flugmálayfirvöld greindu frá því að um hálftvö í dag að íslenskum tíma að allt flug þota af gerðinni Boeing 737 MAX8 væri bannað í lofthelgi landsins.
Með ákvörðun sinni hafa bresk flugmálayfirvöld gripið til sambærilegra aðgerða og gert hefur verið í Ástralíu, Singapúr, Kína, Indónesíu og Malasíu. Þá hefur norska flugfélagið Norwegian einnig ákveðið að stoppa notkun flugvélanna í bili. Hafa hlutabréf í Norwegian lækkað um 7,5% eftir að tilkynningin frá Bretlandi barst.
Icelandair hefur verið með þrjár slíkar þotur í notkun frá því síðasta vor. Sex aðrar eru væntanlegar í flota félagsins næsta vor og fleiri árið 2020. Farþegaþota sömu tegundar fórst einnig við strendur Indónesíu í október.