Rúmur helmingur fyrirtækja hér á landi hyggst mæta launahækkunum með verðlagshækkunum, en um fjórðungur fyrirtækja hyggst mæta þeim með fækkun starfsmanna. Þetta kemur fram í nýrri árlegri könnun sem framkvæmd er fyrir Samtök iðnaðarins, en könnunin byggir á svörum tæplega 300 félagsmanna samtakanna í framleiðsluiðnaði, byggingar- og mannvirkjaiðnaði og hugverkaiðnaði.
„Annað þýðir verðbólga en hitt þýðir atvinnuleysi,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í samtali við ViðskiptaMoggann.
Hann segir að niðurstöður könnunarinnar séu mjög skýrar. „Það er augljós viðsnúningur frá fyrra ári. Það eru skýr merki um kólnun hagkerfisins í þessari könnun, og niðurstöðurnar eru í takt við þau skilaboð sem við höfum fengið frá okkar félagsmönnum á síðustu mánuðum. Hér hefur ríkt mjög langt hagvaxtarskeið í sögulegu samhengi, en nú er það komið á endastöð,“ segir Sigurður.
Mun færri telja aðstæður í efnahagslífinu góðar til atvinnureksturs í febrúar í ár en á sama tíma á árunum 2016 til 2018, samkvæmt könnuninni. Væntingar forsvarsmanna iðnfyrirtækja til efnahagsaðstæðna á næstunni eru einnig á hraðri niðurleið.
Þá leiðir könnunin í ljós að sjötíu prósent fyrirtækja telja sig ekki skorta starfsfólk, sem er talsverð aukning frá fyrra ári, þegar um helmingur var í sömu stöðu.
Sjá fréttina í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag.