Bandarísk flugmálayfirvöld greindu frá því í gær að 737 Max-þotur yrðu kyrrsettar fram í maí, hið minnsta, og Boeing hefur tekið ákvörðun um að afhenda ekki slíkar þotur fyrr en lausn finnst og búið verður að uppfæra hugbúnað í vélunum.
Bogi Nils Bogason forstjóri félagsins sagði við Viðskiptablaðið í gær að ef kyrrsetning vélanna myndi dragast á langinn myndi það hafa áhrif á Icelandair og öll önnur flugfélög sem væru með þessar vélar.
„Þegar fer að færast nær páskum verður þetta erfiðara því við gerðum ráð fyrir að taka fleiri svona vélar inn í leiðakerfið í vor,“ sagði Bogi Nils.
Icelandair hefur þegar fengið afhentar sex Boeing 737 Max-þotur, sem sitja kyrrstæðar á Keflavíkurflugvelli og á von á þremur til viðbótar í vor.
Þrjár höfðu þegar verið teknar í notkun, er ákvörðun var tekin um að kyrrsetja allar þotur af þessari gerð í kjölfar tveggja flugslysa í Eþíópíu og Indónesíu með nokkurra mánaða millibili, en þrjár voru afhentar fyrr í þessum mánuði og eru í innleiðingarferli hjá flugfélaginu.
Í samtali við RÚV í morgun sagði Bogi Nils að verið væri að fara yfir stöðuna hjá félaginu, í ljósi þeirra tíðinda að bandarísk flugmálayfirvöld ætluðu að kyrrsetja vélarnar fram í maí. Hann lagði áherslu á að slík tilkynning hafi ekki komið formlega frá Boeing.
„Það kemur til greina að leigja aðrar vélar eða hnika til í leiðakerfinu,“ segir Bogi Nils við Ríkisútvarpið.
Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, sagði við mbl.is í gær að engin ákvörðun hefði verið tekin um það hvort Icelandair myndi fara fram á bætur frá Boeing og hvernig það yrði gert, ef svo færi, væri ekkert efni fyrir opinbera umræðu heldur eitthvað sem Icelandair myndi leysa með Boeing.