MAX í lykilhlutverki í ákvörðun Icelandair

Steinn Logi er fyrrverandi framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair.
Steinn Logi er fyrrverandi framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair. mbl.is/Styrmir Kári

„Það að Icelandair séu tilbúnir að taka þráðinn upp að nýju er augljóslega keyrt áfram af óvissunni í kringum MAX-inn,“ segir Steinn Logi Björnsson, forstjóri Bluebird og fyrrverand framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair, um viðræður Icelandair um aðkomu að rekstri WOW air sem hafnar eru að nýju.

Steinn Logi segir það hafa verið nokkurn veginn vitað að viðræðum WOW við Indigo Partners yrði eða hefði þegar verið slitið miðað við fréttir síðustu daga. Endurkoma Icelandair að samningaborðinu séu hins vegar tíðindi.

Hann segir óvissuna í kringum Boeing 737 MAX 8-þoturnar stærstu breytuna. „Það er búið að kyrrsetja þær og þeir sem hafa fylgst með því sem er að gerast í þeim málum vita að það er alls ekki hægt að ganga út frá því að þær fari í loftið á næstu mánuðum. Það þýðir, í versta falli, að Icelandair vantar níu vélar í sumaráætlunina sína.“

Samkeppniseftirlitið verði ekki Þrándur í Götu

Í tilkynningu frá Icelandair Group segir að aðkom­a félagsins byggi á sjón­ar­miði sam­keppn­is­rétt­ar um fyr­ir­tæki á fallanda fæti sem Steinn Logi segir benda til þess að Icelandair eigi að taka yfir WOW air. Jafnframt segist hann sannfærður um að Samkeppniseftirlitið muni ekki stoppa samrunann. „Ég gæti meira að segja vel trúað því að það sé búið að kljúfa það við Samkeppniseftirlitið nú þegar.“

„Síðustu viðræður voru langt komnar og Samkeppniseftirlitið búið að eyða töluverðum tíma í að rannsaka samrunann og velta fyrir sér skilyrðum. Ríkið var með pressu þá vegna þess sem þá var að gerast í íslenskum túrisma, og ástandið er orðið tíu sinnum verra núna. Ég er alveg klár á því að Samkeppniseftirlitið myndi ekki vera Þrándur í Götu ef samkomulag næðist um helgina.“

Stóru spurninguna segir Steinn Logi hins vegar vera hvernig Icelandair geti tekið yfir fyrirtæki með óþekkta stærð skulda. Viðræðum hafi verið slitið síðast vegna óyfirstíganlegrar skuldastöðu WOW air.

Isavia felli niður skuldir WOW air

„Hvernig getur Icelandair tryggt það að þeir sitji ekki bara með þennan sama spaða og þeir vildu ekki sitja uppi með síðast? Jú, ríkið er með mikla pressu og gæti sett pressu á Isavia að fella niður skuld WOW við Isavia eða breyta henni með miklum hætti. Það hleypur líklega á milljörðum.“

Hins vegar geti aðkoma Icelandair breytt samningsstöðu við skuldabréfaeigendur og leigusala. „Það er væntanlega búið að semja eitthvað við leigusala og setja þrýsting á skuldabréfaeigendur en það er ekkert fast í hendi. Ef Icelandair og ríkið koma inn í þetta er hætta á að það vakni upp einhverjir draugar sem segi að nú séu aðrar forsendur.“

Ljóst sé að Icelandair hafi augun á rekstri Airbus-véla WOW air og þurfi að komast yfir flugrekstrarleyfi félagsins. Með hvaða hætti það verði gert sé óljóst, en Steinn Logi segir deginum ljósara að staðan sem upp er komin sé mjög flókin.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK