Gengi Icelandair hækkaði um 5,8% í 784 milljóna króna viðskiptum í Kauphöll Íslands í gær. Eftir lokun markaða í fyrrakvöld kom fram að ekkert yrði af fjárfestingu Indigo Partners í WOW air og skömmu síðar tilkynnti Icelandair Group að stjórn þess hafi samþykkt að hefja viðræður við WOW air um aðkomu að rekstri félagsins. Síðustu þrjá daga hefur gengi Icelandair samanlagt hækkað um 24% en gengi Icelandair Group í Kauphöllinni hefur undanfarna mánuði sveiflast að stórum hluta til eftir gangi mála hjá WOW air.
Um miðjan ágúst hækkaði gengi Icelandair um 13% eftir fréttir af rekstrartapi WOW air sem nam 4,8 milljörðum króna frá júlí 2017 til júní 2018. Sama dag birtust fréttir af skuldabréfaútgáfu WOW að upphæð 500-1.000 milljónir sænskra króna.
Hlutabréf í Icelandair lækkuðu um 17,26% þann 28. ágúst, daginn eftir að Björgólfur Jóhannsson tilkynnti að hann hygðist hætta sem forstjóri félagsins, samfara því sem félagið tilkynnti um lækkun afkomuspár.
Þann 11. september hækkuðu bréf Icelandair um 10% en þá hafði skuldabréfaútgáfa WOW air dregist á langinn.
Þann 5. nóvember hækkaði gengi Icelandair um 39% en þann sama dag var tilkynnt um fyrirhuguð kaup félagsins á WOW air.
Þann 29. nóvember greinir Icelandair frá því að hætt hefði verið við fyrirhuguð kaup þess á WOW air. Lækkuðu bréf félagsins þá um 12,7% og enn frekar um tæp 18% næstu tvo daga á eftir.
Þann 13. desember hækkaði gengi Icelandair um rúm 7% vegna uppsagna hjá WOW air og fækkunar flugvéla úr 20 í 11.
Þann 8. febrúar lækkaði gengi Icelandair um 16% eftir að ársuppgjör félagsins var birt en tap þess nam 6,7 milljörðum króna.
Þann 28. febrúar hækkar gengi Icelandair um 7,5% og um 12,3% næstu þrjá daga í kjölfar þess að samningaviðræður WOW og Indigo tókust ekki fyrir tilsettan tíma.
Dagana 11. og 12. mars lækkar gengi Icelandair um tæp 15% í kjölfar tveggja flugslysa Boeing 737 Max 8-véla, en Icelandair hafði gert ráð fyrir 16 slíkum þotum í notkun árið 2021. Auk þess spiluðu jákvæðar fréttir af viðræðum WOW air og Indigo Partners inn í en félagið hugðist hækka fjárfestingu sína í WOW air úr 75 í 90 milljónir Bandaríkjadala.