Það var valinn maður í hverju rúmi á fundinum sem var haldinn í Stjórnarráðinu í dag vegna tilkynningar Icelandair um að flugfélagið hefði slitið viðræðum sínum við WOW air.
Auk Michaels Ridley, sem var ráðgjafi Íslands í bankahruninu, sátu fundinn þau Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmála- og atvinnuvegaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Einnig voru þar staddir Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, og Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu.
Michael Ridley hefur starfað sjálfstætt sem ráðgjafi eftir að hann hætti störfum hjá fjárfestingabankanum J.P. Morgan. Hann hefur einnig látið til sín taka í góðgerðarmálum og er varaforseti samtakanna Save The Children UK og er einnig varaformaður Handel House Trust.
Að fundinum loknum barst tilkynning frá WOW air um að meirihluti skuldabréfaeigenda flugfélagsins og aðrir kröfuhafar þess eigi í viðræðum um að komast að samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins. Nánari fregnir munu berast af þeim viðræðum á morgun.