Önnur vél WOW air kyrrsett

WOW air siglir nú krappa öldu og tvær vélar félagsins …
WOW air siglir nú krappa öldu og tvær vélar félagsins hafa verið kyrrsettar. Eggert Jóhannesson

Önnur vél WOW air hefur verið kyrrsett auk þeirrar sem í gærkvöldi var kyrrsett á flugvellinum í Montréal í Kanada. Um er að ræða vél sömu tegundar og í eigu sama flugvélaleigufyrirtækis. Sú vél er staðsett á flugvellinum í Santa Clara á Kúbu. Þetta herma heimildir mbl.is. Vefsíðan turisti.is greindi fyrst frá. Vélin sem kyrrsett hefur verið á Kúbu ber einkennisstafina TF-NOW og er hún úr verksmiðjum Airbus og var smíðuð árið 2017.

Fyrr í morgun greindi mbl.is frá því að vél WOW air sem stödd var í Montréal í Kanada, og átti að flytja farþega til Keflavíkur seint í gærkvöldi að íslenskum tíma, hafi verði kyrrsett og að forsvarsmenn WOW air hafi brugðið á það ráð að senda aðra vél til Kanada til þess að ferja strandaglópana frá Kanada og heim.

Í eigu sama aðila

Flugvélin sem nú hefur verið kyrrsett á Kúbu er í eigu sama flugvélaleigufyrirtækis og á vélina í Montréal en það er dótturfélag Bocomm og nefnist Jin Shan 20 Ireland Company Limited. Það félag á ekki fleiri vélar en þessar tvær í flugflota WOW air. Vélin hefur verið í leiguflugsverkefni á milli Miami og Kúbu og tengist ekki áætlunarflugi WOW til og frá Íslandi.

Heimildir Morgunblaðsins herma að beiðni hafi borist til flugmálayfirvalda í Miami í gær þess efnis að vélin yrði kyrrsett. Þau skilaboð hafi hins vegar ekki aftrað því að vélin hóf sig til lofts og hélt til suðurs og lenti svo á áætlunarstað sínum á Kúbu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK