Vél WOW í Montréal tekin af félaginu

TF-PRO, vél WOW air.
TF-PRO, vél WOW air. Ljósmynd/Anna Zvereva

Flugvél WOW air, TF-PRO, sem ferja átti farþega frá flugvellinum í Montréal í Kanada í gærkvöldi var kyrrsett að beiðni leigusala vélarinnar í gær. Heimildir mbl.is herma að ekki sé ljóst hvort WOW air takist að losa vélina að nýju með greiðslu til flugvélaleigusalans.

Farþegum sem far áttu með vélinni, ásamt áhöfn, var ekið á hótel í nótt og þeim tilkynnt að vegna „tæknilegra örðugleika“ yrði fluginu frestað þar til nú í kvöld. Um liðna nótt var svo önnur vél frá WOW air, TF-DOG, sem nýkomin var úr flugi frá Frankfurt til Keflavíkur, send af stað til Montréal og verður hún nýtt til að ferja strandaglópana heim í kvöld. Samkvæmt upplýsingum frá flugvellinum í Montréal er vélin á áætlun kl. 19:05 á staðartíma í kvöld.

Heimildir mbl.is herma að WOW air hafi misst nýtingarréttinn á TF-PRO vegna brota á samningsskilmálum og að eigandi vélarinnar, Jin Shan 20 Ireland Company Limited, sem er í eigu flugvélaleigurisans Bocomm, hafi komið vélinni í verkefni annars staðar.

Tvær vélar í eigu Jin Shan 20

Mbl.is hefur leitað viðbragða hjá forsvarsmönnum WOW air við þeirri stöðu sem upp er komin í Kanada vegna TF-PRO en engin svör hafa borist þaðan.

TF-PRO er ekki eina vélin sem WOW air hefur á leigu frá Jin Shan 20 því TF-NOW, sem WOW air hefur verið með í leiguverkefnum í Bandaríkjunum og á Kúbu, er einnig í eigu félagsins. Sú vél er skv. opinberum upplýsingum stödd á Kúbu.

TF-NOW og TF-PRO eru báðar af gerðinni Airbus A321-200 og þær voru smíðaðar árið 2017. Báðar taka vélarnar 200 farþega í sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka