Ef WOW air hefur lengi verið órekstrarhæft, eins og umræðan um flugfélagið hefur verið undanfarið, þá hefur Samgöngustofa brugðist hlutverki sínu með því að svipta félagið ekki flugrekstrarleyfi sínu.
Þetta segir Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair, í samtali við mbl.is.
„Ég hef ekki fylgst með fjárhagsstöðu WOW air. Það er hlutverk Samgöngustofu að tryggja það að þegar þú færð flugrekstrarleyfi eru ákveðin skilyrði sem þú þarft að uppfylla, meðal annars fjárhagsleg skilyrði. Það er hlutverk Samgöngustofu þá að fylgja því eftir áfram,“ segir Björgólfur, sem segist velta því fyrir sér hvort Samgöngustofa sé ekki örugglega að fylgja þessu hlutverki sínu eftir í ljósi stöðunnar sem er uppi.
Spurður hvort hann telji stofnunina hafa brugðist hlutverki sínu segir hann svo vera ef félagið hafi lengi verið órekstrarhæft. „Ég tek það fram að ég veit ekki um fjárhagsstöðu WOW air en umræðan um félagið er þannig að mér sýnist það ljóst að félagið hafi verið í ákveðinni klemmu hvað varðar rekstrarhæfi.“
Björgólfur bendir m.a. á frétt Morgunblaðsins í gær þar sem kemur fram að samkvæmt heimildum hafi WOW air tapað 22 milljörðum króna í fyrra. Sú tala sé „skuggaleg“.
Forstjórinn fyrrverandi segir óvissuna í kringum stöðu mála hjá WOW air vera stærsta þáttinn núna. Hann segir umræðuna hafa verið mikið í þá áttina að um rosalegt högg sé að ræða ef flugfélagið færi í þrot, sem það vissulega sé.
„Það er orðið ljóst að WOW air er orðið helmingurinn af því sem að var þannig að áhrifin eru komin fram. Ég velti því fyrir mér hvort verið sé að mála skrattann á vegginn í þessu sambandi,“ segir hann og nefnir að félagið sé komið í níu vélar núna en þær hafi verið yfir tuttugu á sínum tíma.
Spurður út í stöðu Icelandair segir hann flugfélagið vera í þeirri stöðu sem félag þarf að vera í þegar koma brekkur. Þannig sé flugbransinn. „Við vissum það á meðan ég var þarna og Bogi [Nils Bogason, forstjóri Icelandair] hefur haldið því áfram að flugrekstur er sveiflukenndur og félagið þarf að vera undirbúið undir þá sveiflu og mér sýnist á öllu að Icelandair sé í góðri stöðu hvað það varðar,“ segir Björgólfur og tekur fram að fjárhagsstaða flugfélagsins sé sterk og að félagið njóti trausts.
Hvorki náðist í forstjóra Samgöngustofu né samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við vinnslu fréttarinnar.