Meirihluti skuldabréfaeigenda WOW air hefur komist að samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá WOW air sem send var út nú rétt í þessu.
Samkomulagið sem nú hefur náðst felst í að breyta núverandi skuldum kröfuhafanna í hlutafé í von um að fjármagna félagið þar til það nær stöðugleika til lengri tíma litið. Til þess að það gangi eftir eru nú formlegar viðræður við mögulega fjárfesta hafnar.
Kröfuhafar og skuldabréfaeigendur WOW air funduðu í þriðja sinn í gærkvöldi. Markmiðið var að afla nægilega margra undirskrifta vegna áætlunar um að umbreyta skuldum í 49% hlutafjár. Fulltrúi skuldabréfaeigenda sagði við Morgunblaðið í gærkvöldi að söfnunin hafi gengið vel, og nú er ljóst að nægur fjöldi undirskrifta hefur náðst.
Áætlunin sem nú fer í gang gengur út á að bjóða hin 51% til sölu. Rætt er um 40 milljónir dala, eða um 5 milljarða króna, fyrir hlutinn. Með þessu á að endurreisa WOW air og gera reksturinn lífvænlegan.
„Þetta er mikilvægt skref í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins og stöðugleika WOW Air til lengri tíma litið,“ segir í tilkynningu WOW Air.
Fréttin hefur verið uppfærð.