Már Guðmundsson seðlabankastjóri veit ekki betur en að hann njóti trausts í starfi. Gjaldeyriseftirlitið hafi einungis verið lítill hluti starfsemi bankans, og hafi raunar ekki verið hluti starfsemi hans þegar hann tók við sem seðlabankastjóri.
Már telur það hafa verið mistök að færa málaflokkinn frá Fjármálaeftirlitinu og til Seðlabanka Íslands og segir það hafa verið sín mistök að átta sig ekki á áhættunni sem í því fólst.
Þetta kom fram í máli Más á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis þar sem fjallað var um lög um gjaldeyrismál og stjórnsýslu Seðlabanka Íslands við framkvæmd gjaldeyriseftirlits.
Nefndarmönnum var tíðrætt um ummæli sem Már lét falla í viðtali við Morgunblaðið 20. mars um rökstuddan grun bankans í máli Samherja þar sem hann sagði að ráðist hefði verið í húsleit „vegna þess að við höfðum grun um refsiverð brot. Ef sá grunur hefði verið nægjanlega rökstuddur þá hefðum við ekkert farið í húsleit heldur einfaldlega vísað málinu eða kært það beint til lögreglu.“
Már sagði ummælin á misskilningi byggð. Bankinn hefði haft rökstuddan grun um brot og þar af leiðandi farið í húsleit til þess að afla gagna. Húsleitin hefði getað leitt til kæru, en að í kjölfar hennar hefði bankinn ekki talið sig hafa nægilega rökstuddan grun um meiriháttar brot til þess að hægt væri að kæra málið til lögreglu.
Hvað næstu skref varðar sagði Már að nú væri unnið að því að taka saman gögn frá sumrinu 2014, sem varpa ljósi á samskipti bankans við önnur stjórn- og ákæruvöld, sem urðu til þess að bankinn túlkaði það sem svo að hann hefði heimild til þess að leggja á refsiheimildir. Þessum gögnum verði síðan skilað til forsætisráðherra og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í næstu viku.
Aðspurður hvort þetta staðfesti að bankinn hafi leynt gögnum sagði Már svo ekki vera, enda væri ekki um opinber gögn að ræða, heldur væri afhending gagnanna einungis tilraun til þess að varpa ljósi á og að komast til botns í málinu.
Hvað aðkomu fjölmiðla að málinu varðaði, en frétta- og myndatökumenn Ríkisútvarpsins voru komnir að skrifstofum Samherja bæði á Akureyri og í Reykjavík að morgni 27. mars árið 2012 þegar gjaldeyriseftirlitið framkvæmdi húsleit, sagði Már að lekar af þessu tagi hafi verið algengir á þessum tíma og að fjölmiðlar hefðu oft verið viðstaddir húsleitir. Sem dæmi nefndi hann húsleit sérstaks saksóknara hjá Samherja nokkrum mánuðum áður.