Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að skilaboðin sem Seðlabanki Íslands fékk í tengslum við refsiheimildir sumarið 2014 hafi stangast á í einhverjum málum og að bankinn hafi verið í samskiptum við önnur stjórn- og ákæruvöld í kjölfar afstöðu ríkissaksóknara frá 20. maí 2014 þess að ekki væru lagaheimildir fyrir Seðlabankann til þess að beita refsiaðgerðum.
Már situr nú fyrir svörum á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Fyrstu viðbrögð SÍ hefðu verið að kanna hvort tilefni þætti til að fella niður öll mál. Lögfræðiálits hafi verið leitað, og niðurstaðan hafi verið að bankanum væri heimilt að leggja á sektir, en samskipti bankans við sérstakan saksóknara hefðu vegið þyngst.
Þau samskipti hafi gefið til kynna, án nokkurs vafa, að skilningur embættisins væri sá að afstaða ríkissaksóknara hafi ekki varðað allar reglur um gjaldeyrismál, heldur einungis þær sem skorti formlegt samþykki ráðherra. Þá hafi framkvæmd sérstaks saksóknara í þessum málum staðfest skilning SÍ: brotum gegn reglum sem skorti samþykki var vísað frá, en meint brot á öðrum reglum var vísað til Seðlabankans til umfjöllunar.
Þá segir Már bankann ekki hafa látið þar við sitja, heldur látið reyna á staðfestingu ríkissaksóknara með því að kæra endursendingu sérstaks saksóknara til Seðlabankans.
Með afstöðu frá 31. ágúst 2014 hafi ríkissaksóknari staðfest meðferð sérstaks saksóknara og leiðbeint Seðlabankanum um að hann gæti kært brot gegn öðrum reglum sem hlotið höfðu formlegt samþykki ráðherra og með því staðfest að afstaðan frá 20. maí 2014 ættu einungis við um þær reglur sem skorti formlegt samþykki.
Frá þeim tíma hafi Seðlabankinn fellt niður þau mál sem skorti formlegt samþykki.
Í ljósi álits umboðsmanns Alþingis frá janúar 2019 hafi SÍ óskað eftir skýringum ríkissaksóknara á áliti hans frá 20. maí 2014. Svar hafi borist 19. febrúar þar sem fram komi að niðurstaðan sé sú að reglur um gjaldeyrismál hafi ekki haft nægilega trygga lagastoð svo byggja mætti á þeim refsingu.
Már sagði að óneitanlega hefði bankinn kosið að slíkar niðurstöður hefðu legið fyrir fyrr.
Fréttin hefur verið uppfærð.