Breska ferðaskrifstofan Super Break mun halda áfram áætlunarflugi til Akureyrar næsta vetur og verður þetta þriðja árið í röð sem Super Break mun fljúga til Akureyrar.
Í tilkynningu Flugklasanum AIR 66N, sem vinnur að markaðssetningu Akureyrarflugvallar, segir að breytingar verði gerðar á skipulaginu, áætlunarflugið hefst í febrúar 2020, töluvert seinna en veturinn á undan, og flogið verður fram í apríl.
Haft er eftir Chris Hagan, sem hefur yfirumsjón með verkefninu hjá Super Break, að 14 ferðir verði settar í sölu til að byrja með frá mikilvægustu héraðsflugvöllunum í Bretlandi. Þá standa vonir til þess að hægt verði að bæta fleiri ferðum við, jafnvel frá öðrum flugvöllum.
Þegar Super Break hóf að bjóða ferðir til Akureyrar veturinn 2017 gekk vélunum erfiðlega að lenda á flugvellinum. Flugfélagið Enter Air sinnti leiguflugi fyrir Super Break fyrst um sinn en nú er flugið í höndum breska flugfélagsins Titan Airways.