Dr. Friðrik Larsen vörumerkjasérfræðingur hjá brandr ehf. og lektor í markaðsfræði við Háskóla Íslands segir, spurður um gildi WOW air vörumerkisins, að stóra málið til framtíðar litið sé vörumerkjavirðið (e. Brand equity) í huga fólks hér og þar um heiminn. „Vörumerkjavirðið sem býr í huga neytenda er mjög mikils virði. WOW air hefur staðið sig vel í markaðsstarfi í mörg ár á þeim mörkuðum sem félagið flýgur til,“ segir Friðrik.
Hann bendir á að ef einhver ætlaði að koma núna og reisa fyrirtæki á grunni WOW air, ef allt færi á versta veg, þá sé alveg á hreinu að vörumerkið væri afar mikils virði. „Fyrirtækið hefur varið hundruðum eða þúsundum milljóna í að byggja upp vörumerkið og festa það í huga neytenda. Þetta er fjárfesting sem er raunveruleg og er ennþá til.“
Spurður um vörumerkjavitund þegar fólk er að leita sér að flugi á leitarvélum, þar sem ótal flugfélög koma til greina, segir Friðrik að flugrekstur sé að vissu leyti hrávöruviðskipti, líkt og fjármál og orka, þar sem eina aðgreiningin sé verð. „Það má segja að ef þú færð upp nokkra valmöguleika í leitarvél, og þitt flugfélag er ekki þar á meðal, þá spáir enginn í þig. En ef þú kemur upp sem einn af valmöguleikum innan einhvers ákveðins verðbils sem þú sem neytandi sættir þig við, þá fer þetta að skipta máli. Eftir því sem vörumerkið er sterkara, því meira fyrirgefur viðskiptavinurinn hærra verðbilið.“
Friðrik segir að ef valið í flugleitarvél standi um vörumerki sem viðskiptavinur þekki ekki, þá þurfi verðið að vera töluvert lægra en hjá öðrum vörumerkjum, til að viðskiptavinur velji það. „Gott vörumerki má vera dýrara, þar sem því er treyst. Þannig að það felst ákveðin þversögn í því að segja að fólk leiti alltaf eftir lægsta verði, því þetta snýst í raun ekki bara um verð.“
En hefur WOW vörumerkið skaðast af umræðunni um framtíð félagsins síðustu vikur og mánuði?
„Það er klárlega búið að skaðast, og ef vandræðin halda áfram þá gengur hratt á vörumerkjavirðið. En í þessu tilfelli þá hefur frekar fáum flugum verið aflýst í stóra samhenginu, og ef þeim tekst að halda uppi tíðninni, þá hefur félagið unnið ákveðinn varnarsigur sem mun skipta máli fyrir vörumerkið til framtíðar.“
Friðrik bætir við að stærsti punkturinn sé sá að vörumerkið hafi ákveðið framtíðarvirði, sem hverfi, ef WOW air hverfur af markaði. „Það er búið að leggja mikla fjármuni og ærna fyrirhöfn í að byggja þetta vörumerki upp, og það yrði einfaldlega leiðinlegt fyrir flesta ef félagið myndi hverfa af markaði.“
Eins og sést á meðfylgjandi töflu var American Airlines verðmætasta vörumerki í flugiðnaðinum á síðasta ári, en taflan er unnin upp úr árlegri skýrslu BrandFinance um 50 verðmætustu vörumerkin í iðnaðinum.
Verðmæti American Airlines er þannig jafnvirði tæpra 1.100 milljarða íslenskra króna. Næst verðmætasta vörumerkið er bandaríska félagið Delta, eða rúmlega 1.050 milljarða virði, og þriðja vinsælasta vörumerkið í alþjóðlegum flugiðnaði er síðan enn eitt bandaríska félagið, United Airlines.
Til gamans má geta þess að norska flugfélagið Norwegian er í 31. sæti listans, SAS er í 46. sæti og næst þar á eftir í 47. sætinu er Wizz Air, sem að stórum hluta er í eigu Indigo Partners, sem átti um tíma í viðræðum um kaup á hlut í WOW air. Ekkert íslenskt flugfélag er á listanum.
Í fjárfestakynningu sem Pareto Securities vann fyrir skuldabréfaútboð WOW air í lok síðasta sumars er sérstaklega fjallað um það sem skaðað geti vörumerkið. Þar segir að neikvæð umræða eða tilkynningar sem tengjast félaginu gætu, hvort sem sú umræða er sanngjörn eður ei, dregið úr virði vörumerkisins og haft neikvæð áhrif á WOW.
Ítarlega fréttaskýringu um gang mála hjá WOW air síðustu daga má lesa á miðopnu ViðskiptaMoggans í dag.