Fjórir liðsmenn Sigur Rósar hafa verið ákærðir fyrir skattsvik. Um er að ræða Jón Þór Birgisson, Georg Holm, Kjartan Sveinsson og Orra Pál Dýrason. Þeir eru ákærðir fyrir að telja ekki fram tekjur eða arðgreiðslur.
Frá þessu er greint á vef RÚV. Þar segir að ákærurnar hafi verið birtar en ekki sé ljóst hvenær málin verði þingfest.
Allir eru þeir, nema Kjartan Sveinsson, ákærðir fyrir meiri háttar skattalagabrot með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattaframtölum gjaldárin 2011 til og með 2014. Í ákæru Kjartans kemur fram að hann hafi staðið skil á efnislega röngum skattaframtölum 2012 og 2014.
Jóni Þór, söngvara sveitarinnar, er gefið að sök að hafa komið sér undan greiðslu tekjuskatts upp á rúmar 30 milljónir króna og fjármagnstekjuskatts upp á 13 milljónir.
Orri Páll Dýrason, sem hætti í Sigur Rós síðasta haust, er ákærður fyrir að hafa komist hjá greiðslu tekjuskatts upp á 36 milljónir og fjármagnstekjuskatts upp á 9,5 milljónir.
Greint var frá því í lok síðasta mánaðar að skattamál Sigur Rósar væri komið til ákærusviðs hjá embætti héraðssaksóknara og rannsókn málsins lokið en meint brot höfðu verið í rannsókn frá janúar 2016.
Skattayfirvöld telja meint brot mjög alvarleg og falli undir 262. grein almennra hegningarlaga, en brot á þeirri grein varða allt að sex ára fangelsi, eða fésekt.