Ráða ráðum sínum í kvöld og nótt

Skiptastjórar funduðu með forsvarsmönnum WOW air í dag.
Skiptastjórar funduðu með forsvarsmönnum WOW air í dag. mbl.is/Hari

Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður og annar skiptastjóra þrotabús WOW air, segir það næsta skref í málefnum hins gjaldþrota félags að birta innköllun til kröfuhafa og að skiptastjórar muni vinna í kvöld og fram á nótt og ráða ráðum sínum. Auk Sveins Andra er skiptastjóri Þorsteinn Einarsson hæstaréttarlögmaður.

Skiptastjórar funduðu með forsvarsmönnum WOW air eftir að félagið var úrskurðað gjaldþrota klukkan 13:30 í dag og lauk fundinum síðdegis.

„Við höfum farið yfir stöðuna með stjórn og stjórnendum félagsins og munum ráða ráðum okkar í framhaldinu í kvöld og nótt. Síðan verður farið í fyrstu aðgerðir á morgun. Fyrst og fremst er verkefni okkar að kanna fjárhagsstöðu félagsins, hvaða eignir eru og loka öllum endum, samningum o.fl.,“ segir hann.

Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður.
Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður. mbl.is/Árni Sæberg

Spurður hvert umfang málsins sé og hve langan tíma það geti tekið að skipta búi WOW air segir hann að ekki sé hægt að segja til um það á þessum tímapunkti. „Næsta skref er að birta innköllun,“ segir Sveinn Andri.

Vel tekið á móti skiptastjórum í WOW

Sveinn Andri segir að fólk sé hvort tveggja örmagna og vonsvikið eftir törn síðustu daga og að því sé sýndur skilningur.

„Það er auðvitað sérstakt þegar við komum hér inn. Fólk hefur unnið hér sleitulaust og hvíldarlítið í marga sólarhringa. Við virðum það og það var tekið vel á móti okkur, bæði stjórn, stjórnendur og lykilmillistjórnendur hafa verið okkur innan handar. Þau eiga þakkir skildar, maður skynjar sérstakt andrúmsloft og það hefur verið mikið álag á fólki í þessari törn,“ segir hann.

Spurður hvað segja megi um stöðu félagsins, svarar Sveinn Andri að ekki sé tímabært að tala um eignastöðu félagsins á þessum tímapunkti. 

„Það er ljóst að þetta félag á hvorki fasteignir né flugvélar, það liggur fyrir, en hjá félagi sem er í umfangsmiklum rekstri eru alltaf einhverjir fjármunir, en það er okkar verkefni að fara yfir það,“ segir hann. Spurður út í skuldastöðuna segir hann að hún eigi eftir að skýrast endanlega þegar kröfum hafi verið lýst.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK