„Við vissum að þetta stóð til, en við vissum ekki hversu mörgum yrði sagt upp. Þetta er það fyrirtæki sem hefur þjónustað WOW uppi á velli langmest þannig að það blasti við að ef að WOW færi illa þá myndi Airport Associates þurfa að grípa til þessa ráðs,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar (VMST), í samtali við mbl.is.
Fyrirtækið Airport Associates sem veitir flugafgreiðsluþjónustu á Keflavíkurflugvelli og sem m.a. þjónustaði WOW air tilkynnti nú síðdegis að fyrirtækið hafi ákveðið að segja upp 315 manns í kjölfar gjaldþrots WOW air. Í tilkynningu frá félaginu segir hins vegar að til standi að endurráða töluverðan fjölda.
Hópuppsögnin er sú stærsta í kjölfar gjaldþrots WOW air í gær en Unnur hefur óskað eftir samantekt um fjölda uppsagna síðasta sólarhringinn og mun hún liggja fyrir síðar í dag. Unnur á hins vegar ekki von á annarri stórri hópuppsögn í líkingu við Airport Associates.
Ljóst er að mikið álag verður á starfsmönnum Vinnumálastofnunnar næstu vikur og jafnvel mánuði og ákvað félagsmálaráðuneytið í morgun að veita Vinnumálastofnun 80 milljóna króna tímabundið framlag vegna falls WOW air.
Gripið hefur verið til ráðstafana á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar í Keflavík vegna uppsagnanna. „Við munum fjölga starfsfólki sem mun aðstoða fólk við að sækja um atvinnuleysisbætur og leita sér að starfi og útskýra réttindi og hjálpa fólki að sækja þau,“ segir Unnur.
Hún bendir á að eðli uppsagnanna hjá Airport Associates sé annað þar sem fyrirtækið er ekki gjaldþrota líkt og WOW air. „Hjá WOW varð fólk atvinnulaust á þeirri stundu en þarna er fólk með sinn uppsagnafrest, þannig að þjónustan við það fólk dreifist betur.“