Pétur Hreinsson
Elvar Möller, sérfræðingur í greiningardeild Arion banka, segir að ólíklegt sé að erlend flugfélög stígi inn í það gat sem myndast við gjaldþrot flugfélagsins WOW air hvað varðar framboð á flugleiðum til styttri tíma.
„Ef við horfum bara á sumarið þá er líklega komið of nálægt háannatímanum, þessari sumaráætlun flugfélaga sem nær frá 1. apríl til loka október, til þess í það minnsta að við sjáum einhver erlend flugfélög stíga inn í það gat sem er að myndast með brotthvarfi WOW air.“
Fram kom í máli Elvars í vikunni að samtals hefðu áfangastaðir WOW air verið 18 talsins í Evrópu og 6 í Ameríku. Þar af ætti Icelandair 10 sameiginlega áfangastaði í Evrópu og 5 í Ameríku. Þessu til viðbótar ættu önnur erlend flugfélög 16 sameiginlega áfangastaði og WOW air í Evrópu og 5 sameiginlega áfangastaði í Ameríku.
Einu leiðirnar af þeim 24 sem WOW air ætlaði sér að fljúga til í sumar þar sem farþegar hafa ekki lengur val um að koma í beinu flugi til Íslands eru Detroit, Tel Aviv og Lyon. Áfangastaðir á borð við Tenerife og Alicante á Spáni eru þó ekki beint í leiðakerfi Icelandair, en slíkir áfangastaðir hafa að sögn Elvars verið að nær öllu leyti fyrir íslenska ferðamenn. Aðspurður hvort Icelandair geti huganlega stokkið á flug til Tenerife segir Elvar það geta gerst.
Sjá fréttaskýringu um þetta mál í heild í Morgunblaðinu í dag.