Funda með fulltrúa eiganda þotanna í dag

Önnur af tveimur þotum ALC á Keflavíkurflugvelli.
Önnur af tveimur þotum ALC á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/​Hari

Isavia mun síðar í dag funda með fulltrúum eiganda tveggja flugvéla sem WOW air var áður með á leigu, en önnur vélin var kyrrsett á Keflavíkurflugvelli í kjölfar gjaldþrots WOW air. Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, staðfestir við mbl.is að fundurinn fari fram í dag, en hann munu sitja lögfræðingar Isavia ásamt íslenskum lögfræðingum sem gæta hagsmuna eigandans, Air lease corporation (ALC).

Guðjón segir að þetta sé fyrsti fundurinn og að farið verði yfir stöðuna sem uppi sé. Vélarnar sem ALC á og eru á Keflavíkurflugvelli eru TF-GPA og TF-SKY, en sú fyrrnefnda var kyrrsett af Isavia upp í skuldir WOW air við flugvöllinn. TF-SKY er hins vegar ekki kyrrsett að sögn Guðjóns, en Isavia var beðið um að verja vélarnar veðri og vindi meðan næstu skref væru ákveðin.

Fram hefur komið í Morgunblaðinu að Isavia hafi breytt kröfum vegna lendingargjalda sem komnar voru yfir gjalddaga í lán til tveggja ára, en upphæð lánsins nemur um 1,8 milljörðum króna. Guðjón vildi í samtali við mbl.is ekkert gefa upp hvort frekari skuldir væru til staðar. Þá var einnig greint frá því í Morgunblaðinu að skuld WOW air við ALC hafi verið 1,6 milljarðar.

ALC er að stærstum hluta í eigu hins ungverskættaða Steven Udvar-Házy, en hann var í fyrra í 572. sæti á lista Forbes yfir ríkustu menn heims. Voru eignir hans þá metnar á 430 milljarða.

Guðjón segir að í dag komi líklegast fram frekari upplýsingar um hvað gert verði við TF-SKY og hver afstaða ALC til kyrrsetningarinnar sé.

Spurður út í ástæðu þess að TF-GPA var kyrrsett en ekki aðrar vélar WOW air, meðal annars með tilliti til þess að félagið leigði þotur af fleiri félögum segir Guðjón að TF-GPA hafi verið staðsett á vellinum þegar gjaldþrotið fór í gegn og Isavia fór af stað til að verja kröfur sínar. „Við teljum að ein vél sé nægjanleg trygging fyrir þeirri skuld sem um ræðir,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK