Isavia segir ekkert í hendi varðandi önnur flugfélög sem hefðu áhuga á að fljúga til Keflavíkurflugvallar og reyna að fylla í skarðið sem varð við gjaldþrot WOW air í síðustu viku. Tilkynnt var um að hollenska flugfélagið Transavia muni fljúga frá Schiphol til Keflavíkurflugvallar þrisvar sinnum í viku frá 5. júlí.
„Isavia er að vinna í þessum málum og við tökum áfram þátt í ráðstefnu sem við höfum gert áður þar sem við ræðum við áhugasöm flugfélög,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.
Hann bendir á að flugfélög sem hafi áhuga á lendingarplássum í Keflavík sæki um þau í gegnum þriðja aðila sem sjái um úthlutun á plássum, samkvæmt alþjóðareglum.
Guðjón segist ekki vera með á hreinu hversu mikið af plássum hafi losnað við brotthvarf WOW air en segir ýmsa tíma lausa á Keflavíkurflugvelli.
„Það eina sem er í hendi er tilkynningin frá því í gær,“ segir Guðjón en þar kom meðal annars fram að Isavia myndi áfram leita til flugfélaga um að hefja flug til landsins.