Lauf safnar 300 milljónum í hlutafé

Benedikt Skúlason og Guðberg Björnsson, stofnendur Lauf Forks, Huld Magnúsdóttir, …
Benedikt Skúlason og Guðberg Björnsson, stofnendur Lauf Forks, Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, og Örn Viðar Skúlason, fjárfestingastjóri sjóðsins. Ljósmynd/Aðsend

Íslenski hjólaframleiðandinn Lauf hefur tryggt sér rúmlega 300 milljónir króna í nýtt hlutafé, en hlutafjáraukningin er leidd af Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Nýja hlutafénu er ætlað að standa undir áframhaldandi uppbyggingu félagsins í Bandaríkjunum, en þar selur félagið nú hjól í 70 verslunum.

Lauf Forks hf. var stofnað árið 2011 af þeim Benedikt Skúlasyni og Guðberg Björnssyni. Upphaflega einbeitti fyrirtækið sér að sérhönnuðum demparagöfflum sem eru mjög frábrugðnir öðrum slíkum hjóladempurum á markaðinum. Notast er við svokallaða blaðfjöðrun, en hún nýtur nú einkaleyfis á öllum helstu framleiðslu- og sölumörkuðum. Árið 2017 færði fyrirtækið sig svo yfir í eigin hjól með svokölluðu True Grit-malarhjóli. Nýlega kom svo á markað hjólið Anywhere sem einnig er malarhjól, en þó meira alhliða en True Grit. Býr hjólið yfir nýrri gerð stýris sem gefur létta fjöðrun.

Í tilkynningu er haft eftir Huld Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, að sjóðurinn hafi trú á að Lauf muni áfram vaxa. „Reiðhjól þeirra seljast vel út um allan heim og þá sérstaklega í Bandaríkjunum. Starfsemi Lauf Forks er dæmi um vel heppnaða nýsköpun og með auknu hlutafé fær félagið tækifæri til að sækja fram á nýjum mörkuðum.“

Erla Skúladóttir, stjórnarformaður Lauf Forks, segir skynsamlegt að horfa vestur um haf í markaðssókn. „Reiðhjól Lauf Forks hafa fengið góðar viðtökur í Bandaríkjunum og því ákjósanlegt að leggja áherslu á frekar vöxt þar að sinni. Markaðurinn vestanhafs er risavaxinn og malarhjólreiðar njóta þar sívaxandi vinsælda á kostnað hefðbundinna götuhjólreiða. Þróunin á Evrópumarkaði er skemmra á veg komin en félagið vinnur að samstarfssamningi við öflugan dreifingaraðila um markaðssetningu og sölu reiðhjólanna þar á næstu misserum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK