Icelandair Group mun áfram eiga 20% hlut í Icelandair hotels og tengdum fasteignum gangi samningaviðræður við mögulegan kaupanda eftir. Ákveðið hefur verið að ganga til lokasamningaviðræðna um sölu á hótelunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu, en fram kemur að ekki verði greint frá nafni mögulegs kaupanda að svo stöddu.
Greint var frá því í maí á síðasta ári að Icelandair hefði sett dótturfélagið Icelandair hotels á sölu. Félagið rekur í dag 13 hótel undir merkjum Icelandair hótela og Hótel Eddu. Samtals er um að ræða 1.937 herbergi á landinu öllu, 876 í Reykjavík, 450 á landsbyggðinni og 611 á sumarhótelum Hótel Eddu. Þá er stefnt að opnun nýs hótels við Austurvöll árið 2019.
Samkvæmt tilkynningunni stefna samningsaðilar á að viðskiptin eigi sér stað við lok annars ársfjórðungs á þessu ári, en nánar verður greint frá fyrirhuguðum viðskiptum nái kaupandi og seljandi saman um kaupsamning.