Hlutabréf í Icelandair hafa rokið upp í viðskiptum í Kauphöllinni í byrjun viðskiptadags. Hafa bréf félagsins hækkað um 6,88% í tæplega 90 milljóna króna viðskiptum, en í morgun var greint frá því að bandaríska fjárfestingafélagið PAR capital management myndi kaupa 11,5% í flugfélaginu.
Bréf í Arion banka hafa hins vegar lækkað um tæplega 5% í viðskiptum í dag, en samtals hafa átt sér stað viðskipti fyrir rúmlega 6 milljarða. Í gær var greint frá því að Kaupskil, dótturfélag Kaupþings og stærsti einstaki eigandi í Arion banka, ætlaði að selja 10% hlut í bankanum, en virði hlutarins miðað við markaðsvirði í gær var um 15,3 milljarðar.
Bréf í öðrum fyrirtækjum hafa hækkað eða staðið í stað það sem af er degi. Bréf í Festi hafa hækkað um 3,5%, í Símanum um tæplega 3% og í Regin og Sjóvá um rúmlega 2,6%. VÍS hefur farið upp um 2,5% og Reitir um 2,22%, á meðan Hagar hafa hækkað um 1,7%.