Erlendur sjóður kaupir 11,5% hlut í Icelandair

PAR Capital Management hefur keypt 11,5% hlut í Icelandair.
PAR Capital Management hefur keypt 11,5% hlut í Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Icelandair og bandaríski fjárfestingasjóðurinn PAR Capital Managment hafa komist að samkomulagi um kaup sjóðsins á 11,5% hlut í Icelandair, en á hluthafafundi í nóvember var samþykkt að auka hlutafé félagsins um 625 milljónir hluta.

Kaupir PAR alla þessa hluti, en samkvæmt tilkynningu er kaupverðið 9,03 krónur á hlut. Er því um að ræða viðskipti fyrir 5,64 milljarða króna. Við lokun markaða í gær var gengi bréfa Icelandair 9,59 krónur á hlut. Verður PAR með viðskiptunum næststærsti hluthafi Icelandair á eftir Lífeyrissjóði verslunarmanna.

Samkomulagið er bundið fyrirvara um samþykki hluthafafundar og því að hluthafar afsali sér forgangsrétti að hinum nýju hlutum. Icelandair Group mun boða til hluthafafundar sem haldinn verður 24. apríl.

PAR Capital Management er fjárfestingarsjóður staðsettur í Boston sem hefur 4 milljarða Bandaríkjadala í stýringu. Sjóðurinn var stofnaður árið 1990 og leggur áherslu á langtímafjárfestingar í ferðaþjónustu og stafrænum miðlum. Sjóðurinn hefur meðal annars fjárfest í flugfélögunum Delta Airlines, Southwest airlines og Jetblue, auk ferðabókunarsíðunum Expedia og Booking.

Fram kemur í tilkynningunni að hlutafjáraukningunni sé ætlað að styrkja fjárhagsstöðu Icelandair og gera félaginu kleift að nýta vaxtatækifæri sem núverandi aðstæður á flugmarkaði kunna að fela í sér. Gefur þetta til kynna að Icelandair ætli sér að reyna að fylla í skarð WOW air, sem varð gjaldþrota í síðustu viku, en félagið var helsti keppninautur Icelandair á flugi til og frá Íslandi.

Lífeyrissjóður verslunarmanna er áfram stærsti hluthafi Icelandair, en félagið á rétt tæplega 700 milljónir hluta. PAR verður hins vegar talsvert stærri en lífeyrissjóðirnir Gildi, Birta og LSR, en þeir eiga á bilinu 354 milljónir og upp í 400 milljónir hluta hvert félag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK