Sveinn Andri Sveinsson verður áfram skiptastjóri þrotabús WOW air. Krafa frá Arion banka um að hann yrði settur af var tekin fyrir á fundi í gær og niðurstaða þess fundar var að Sveinn Andri yrði áfram skiptastjóri.
Þetta staðfestir Símon Sigvaldason dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur í svari við fyrirspurn mbl.is, en RÚV greindi fyrst frá þessu. Símon segir enn fremur að ef málið haldi áfram verði það í formi ágreiningsmáls sem þingfest verði sérstaklega.
Arion banki ætlar að fara með málið lengra og hyggst bankinn láta Héraðsdóm Reykjavíkur skera úr um skipan Sveins Andra með úrskurði, samkvæmt því sem Haraldur Guðni Eiðsson samskiptastjóri Arion banka segir við mbl.is. Hann vill annars ekkert tjá sig nánar.
Aðfinnslur Arion banka, sem var viðskiptabanki hins fallna flugfélags og því að líkindum einn stærsti kröfuhafi WOW air, lúta að meintu vanhæfi lögmannsins til þess að afgreiða kröfur Arion banka sem skiptastjóri, samkvæmt því sem fram hefur komið í fjölmiðlum í morgun.
Sveinn Andri hefur sem lögmaður fyrirtækjanna Datacell og Sunshine Press Productions staðið í málarekstri gegn greiðslumiðlunarfyrirtækinu Valitor, sem er dótturfélag Arion banka, í þó nokkur ár.
Það hefur verið nokkuð hatrömm deila, en fyrirtækin tvö hafa krafist þess að Valitor greiði þeim allt að átta milljarða króna, vegna lokunar Valitors á greiðslugátt til Datacell árið 2011.
Datacell safnaði greiðslum fyrir Sunshine Press Production, sem er fyrirtækið að baki Wikileaks.
Í málarekstrinum hefur Sveinn Andri meðal annars farið fram á það fyrir hönd skjólstæðinga sinna að Valitor verði tekið til gjaldþrotaskipta og að eignir félagsins verði kyrrsettar.