Arion banki hefur farið fram á að Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður verði settur af sem skiptastjóri þrotabús WOW air vegna vanhæfis. Þetta staðfestir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs bankans, í samtali við Mannlíf.
Haraldur segir í samtali við mbl.is að þetta tengist ágreiningi bankans við Svein Andra, en hann er lögmaður fyrirtækjanna DataCell og Sunshine Press Productions, sem hefur um árabil verið í málaferlum gegn Valitor, sem er dótturfyrirtæki bankans.
Haraldur sagði í samtali við Mannlíf, að málið sé í farvegi en vildi að öðru leyti ekki tjá sig frekar um það.
Þá er haft eftir Arnari Þór Stefánssyni, lögmanni hjá LEX lögmannsstofu, að mikið þurfi til að skiptastjóri þrotabús sé settur af eftir að hafa verið skipaður.
Uppfært kl. 10:55: Áður sagði í fréttinni að Sveinn Andri væri skiptastjóri í búi DataCell, en hið rétta er að hann lögmaður fyrirtækisins, sem hefur verið í málaferlum árum saman gegn Valitor, eins og segir að ofan.